Eitt þessara hlaupa fer fram í dag og fram á nótt, en það er Goshlaupið um eldfjallasali Reykjanesskagans sem hafa heldur betur látið á sér kræla á seinni tímum eftir ríflega átta hundruð ára svefnríkt skeið.

Allir hittast í lokin

Hlaupið hófst raunar í nótt sem leið, í glannabítið klukkan 04.00, en þá fóru einna harðsvíruðustu hlaupararnir af stað sem ætla sér að skokka hundrað kílómetra fram á kvöld.

Aðrir hlauparar – og vel að merkja, það er enn hægt að skrá sig á fésbók Reykjanes Volcano Ultra – fara af stað klukkan 18.00 í kvöld og eiga fyrir höndum fimmtíu kílómetra, klukkan 20.00 leggja þeir af stað sem ætla sér þrjátíu kílómetra og loks fara tíu kílómetra hlaupararnir í skóna klukkan 11.00.

Lagt er í hann frá Salthúsinu – og þar munu hóparnir safnast saman um og undir miðnætti til að skiptast á skoðunum um upplifunina sem Ívar Trausti Jósafatsson, einn af forkólfum hlaupsins, segir að verði engu lagi lík, en hann byrjaði með hlaupið á síðasta ári – og svo vel tókst til að engin ástæða er til annars en að endurtaka leikinn.

Frelsið er áþreifanlegt

„Það er bara truflað að hlaupa um þetta eldfjallasvæði þegar sólin er að setjast,“ segir hann og það má heyra af hljómi orðanna að hann er vart samur maður eftir hlaupið í fyrra þegar um fimmtíu manns tóku þátt, en hálfu fleiri taka að minnsta kosti þátt í ár.

„Þetta er sannkallað upplifunarhlaup – og frelsið sem maður finnur fyrir á leið yfir virkt og óvirkt eldfjallalandið er eiginlega áþreifanlegt,“ bætir Ívar Trausti við.

Hann segir mikilvægt að skóa sig vel, enda er hlaupið yfir hrjúft hraun og skreipa stíga, „en spáin er góð,“ segir Ívar Trausti, eftirvæntingarfullur. „Sólin verður með okkur á enda,“ bætir hann við í lokin um leið og hann hvetur landsmenn til dáða, enn sé hægt að skrá sig í hlaupið, ellegar mæta bara í Salthúsið og fylgjast með þessari hollustuveislu með snakk í annarri og drykk í hinni.