Nýlega kom út ljóðabókin Glerflísakliður eftir Ragnheiði Lárusdóttur. Þar er að finna eins konar samtal og sögu tveggja kvenna, önnur glímir við Alzheimer og hin er nýlega fráskilin og tekst á við sorgina sem fylgir því að missa maka sinn í skilnaði. Ljóðin í bókinni speglast og á hverri opnu birtast ljóð um konurnar tvær.

„Þetta sorgardúó byggir á mínu lífi, og konurnar í bókinni eru ég og móðir mín sem lést úr Alzheimer,“ segir Ragnheiður. „Þeirri fráskildu batnar nú, en hinni versnar þangað til hún deyr, enda var hún orðin gömul kona.“

Heiti bókarinnar, Glerflísakliður, kom til Ragnheiðar þegar hún fór að skoða gosið í Geldingadölum og heyrði hljóðið í hrauninu þar sem það rann fram. „Það var eins og það væri verið að hræra í glerbrotum,“ útskýrir hún.

Sem tengist þá kannski þessum erfiða efnivið?

„Já, kannski. En þrátt fyrir að bókin fjalli um mikla sorg þá er líka mikill húmor og margt skemmtilegt í þessari bók,“ segir Ragnheiður. „Þetta er eiginlega uppgjör við þessar tvær konur sem eru þannig séð hvorug til lengur, því þessi sorgbitna er ekki lengur til staðar.“

Ragnheiður segir að það hafi verið mikill léttir að skrifa um móður sína.

„Þrátt fyrir að það sé sorglegt og niðurdrepandi að fylgjast með fólki hverfa augum sér, þá var svo margt fallegt í þessu ferli,“ segir hún. „Það var gott að gera þetta upp við sig. Svona var þetta bara, og þetta var eðlilegt og fallegt þrátt fyrir allt.“

Síðasta bók Ragnheiðar, 1900 og eitthvað, fékk góðar viðtökur meðal lesenda og fékk Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og var tilnefnd til Maístjörnunnar. Ragnheiður vinnur nú að handriti nýrrar ljóðabókar sem ber heitið Kona/Spendýr sem fjallar um konuna í hinum ýmsu hlutverkum.

„Kvenhlutverkið getur verið mjög krefjandi líkamlega og andlega,“ segir Ragnheiður. „Konur þurfa sífellt að berjast fyrir rétti sínum og eru ekki alltaf teknar alvarlega. Það er þessi glíma sem ég er að skrifa um núna.“

Glerflísakliður er önnur ljóðabók Ragnheiðar Lárusdóttur.
Kápa/Bjartur