Klifurfélag Reykjavíkur fagnar tuttugu ára stórafmæli nú um helgina. Hilmar Ingimundarson, formaður félagsins, hefur stundað klettaklifur í um þrjátíu ár og verið hluti af félaginu frá upphafsdögum þess.

„Ég held að það sé félagsskapurinn sem dregur fólk að og svo er þetta auðvitað líka bara skemmtileg hreyfing,“ segir hann, aðspurður um hvað dregur fólk í klifur. „Þetta er rosalega fjölbreytt áhugamál þar sem þú getur verið bæði inni og úti að æfa og er líka fullt af áskorunum. Hver þraut er einstök og það getur verið mjög gefandi að leysa þær.“

Klifur sem keppnisgrein er tiltölulega ung, en fyrsta heimsmeistaramótið var haldið í Frankfurt árið 1991. Á Íslandi voru margir sterkir klifrarar sem höfðu hug á því að keppa erlendis og úr varð að Sportklifurfélag Reykjavíkur var stofnað árið 1994 svo hægt væri að skrá keppendur á stórmót og að skipuleggja keppnismót hérlendis.

Fyrsta íslenska æfingaaðstaðan, Vektor, var svo opnuð árið 1997 og var rekin í Borgartúni, þar til Klifurfélag Reykjavíkur var stofnað, sem tók utan um reksturinn. Hilmar hefur stundað klettaklifur víðs vegar um heiminn, en segir að klifursamfélagið á Íslandi sé á vissan hátt einstakt.

„Hópurinn hérna á Íslandi er mjög samheldinn og við dveljum mikið innandyra, enda getum við ekki verið úti nema nokkra mánuði á ári,“ segir hann. „Við erum ansi háð veðuröflunum svo það er mikilvægt að við eigum góða innanhússaðstöðu.“

Hilmar hefur stundað klettaklifur í um þrjátíu ár.
Mynd/Aðsend

Fjórði fasinn

Í tilefni stórafmælisins verður afmælisdagskrá í boði fyrir meðlimi félagsins og velunnara þess í Klifurhúsinu í dag. Þar munu gestir geta fylgst með bestu klifrurum félagsins leika listir sínar yfir kökum og kaffi. Hilmar segir miklar vendingar væntanlegar í Klifurhúsinu, tengdar því sem hann kallar „fjórða fasann“.

„Við höfum verið á þremur stöðum til þessa og erum nú að undirbúa okkur fyrir þann fjórða,“ segir hann og bætir við að nýtt húsnæði muni bjóða upp á betri og skemmtilegri æfingaaðstöðu. „Markhópurinn stækkar, aðgengi fyrir almenning verður betra og æfingaaðstaðan fyrir afreksfólkið okkar líka,“ segir hann. „Við sjáum líka fram á að geta hlúð mun betur að æskulýðsstarfinu okkar.“

Dagskráin í Klifurhúsinu hefst klukkan 14 á sunnudag og er áhugasömum bent á að kynna sér starfsemi félagsins frekar á heimasíðu Klifurhússins.