Við erum að vinna úr fatnaði sem verður afgangs þegar Rauði krossinn er búinn að velja það sem hann ætlar að selja og senda út,“ segir Valbjörg Rúna Björgvinsdóttir, nemi í fatahönnunardeild LHÍ um verkefnið Misbrigði. Afrakstur þess verður sýndur á tískusýningum í leikhúsrými LHÍ, Laugarnesvegi 91, í kvöld, sem byrja klukkan 18.00 og 19.00. Gengið er inn um listkennsluinngang en nauðsynlegt að ná sér í ókeypis miða fyrst á tix.is

Þegar það sem Valbjörg Rúna er að gera er grandskoðað sést glöggt að allt er hægt ef hugvitið er fyrir hendi. Auk kjóls úr gamalli golftreyju og jakka úr svörtum gallabuxum hefur hún saumað buxur úr álhitateppi, fóðraðar með málningargalla úr Bykó og nokkurs konar peysu úr svörtum gallabuxum. Önnur ermin er með grófum vasa af smiða-vinnubuxum en fínlegur, hvítur saumur vegur þar á móti. Fóðrið er filt úr Primaloft-úlpu. „Ég hef smá áhyggjur af að módelið verði að kafna úr hita,“ segir hönnuðurinn brosandi og kveðst búin að brjóta nokkrar nálar við þetta verk.

Saumatímarnir í grunnskólanum voru í uppáhaldi hjá Valbjörgu Rúnu, ásamt myndmennt, að hennar sögn. Nú er hún meðal níu nema á öðru ári í LHÍ en áður en hún sótti um þar fór hún á fataiðnbraut Tækniskólans til að læra grunnatriðin. „Bekkurinn er allur að versla í Rauðakrossbúðunum og öðrum verslunum með notuð föt. Það er miklu skemmtilegra að eiga eitthvað einstakt heldur en fjöldaframleitt,“ segir hún og bætir við: „Sem unglingur var ég oft í fötum sem mamma hafði saumað þegar hún var yngri.“

Jakkinn er úr gallabuxum, skreyttur hvítum, tvöföldum saumi og sílikoni. Kjóllinn er úr síðri golftreyju.