Það er greinilega líflegt kringum Ástþór Jón Tryggvason, formann ungmennaráðs UMFÍ, þegar ég hringi í hann. „Ég er að þjálfa krakka í frjálsum íþróttum á Hvolsvelli, meðal annars í glímu, blaki og borðtennis,“ segir hann hress. Ástþór Jón er líka í nefnd sem undirbýr hina árlegu ráðstefnu Ungt fólk og lýðræði, sem haldin verður í Hörpu eftir morgundaginn fyrir fólk á aldrinum 16 til 25 ára.

Ástþór Jón segir ráðstefnuna hafa fest sig í sessi frá því hún var haldin fyrst fyrir ellefu árum. „Það þarf ekki lengur að ýta við neinum. Öllum finnst gaman, enda er margt sem ungt fólk lætur sig varða. Yfirskriftin í ár er: Hvar, hvenær og hvernig getur ungt fólk haft áhrif? Þátttakendum er deilt í umræðuhópa með ráðherrum og þingmönnum. Svo eru fyrirlestrar. Eftir hádegi skipta ungmennin sér í hópa, án ráðamanna, og undirbúa pallborð, ákveða hvaða spurningar skuli bornar upp og hverju þau vilji ná fram.“

Spurður hvort fyrri ráðstefnur hafi skilað auknum áhrifum til ungs fólks í samfélaginu að hans áliti, svarar Ástþór Jón: „Já, þegar ég mætti fyrst fyrir fimm árum, var allur gangur á því hvort sveitarfélög voru með ungmennaráð, en nú heyrir til undantekninga ef svo er ekki. Dæmi eru um að fólk hafi farið heim af svona ráðstefnu fullt af eldmóði og byrjað að gera sig gildandi í sínu nærumhverfi. Það er jákvæð þróun.“