Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) fagnar 90 ára afmæli í dag. Í tilefni dagsins gefur félagið út afmælisrit þar sem farið er yfir sögu sambandsins og greinar eru birtar eftir núverandi og fyrrverandi félaga. Halla Sigrún Mathiesen, formaður SUS, segir að herlegheitum hafi verið frestað þegar COVID skall á. „Það stóð til að vera með afmælisveislu en við ákváðum að fresta henni vegna óvissunnar sem fylgdi faraldrinum.“

Halla segir að upprunalegt hlutverk SUS hafi verið tvíþætt. „Þegar félagið er upprunalega stofnað er tilgangurinn annars vegar að berjast fyrir því að Ísland taki öll mál sín í eigin hendur, og hins vegar að efla í landinu víðsýna og frjálslynda framfarastefnu, með einstaklingsfrelsið og hagsmuni allra stétta að leiðarljósi,“ segir hún. „Í dag fer aðeins minna fyrir fyrrnefnda markmiðinu enda erum við orðin sjálfstæð þjóð en hitt á ennþá jafn vel við. Hlutverk SUS er ennþá að veita Sjálfstæðisflokknum aðhald, vekja athygli á nýjum hugmyndum og stuðla áfram að því að við séum að taka framförum í átt að meira frelsi og auknum lífsgæðum.