Sigyn Jónsdóttir, sem er formaður félagsins, segir markmið þess að stuðla að jafnvægi og jafnrétti í atvinnulífinu. „Við gerum það með alls kyns fræðslu, tengslamyndun og hvatningu. Við erum með einn til tvo viðburði í mánuði fyrir félagskonur sem geta verið námskeið, málstofur, tengslakvöld og ýmislegt skemmtilegt.“

Fyrsta stóra ráðstefna félagsins var haldin í fyrra en þar var fjallað um störf framtíðarinnar. „Þetta gekk rosalega vel í fyrra og við fengum frábærar viðtökur þannig að við ákváðum að hafa þetta árlegan viðburð. Núna munum við fjalla um skakkt kynjahlutfall meðal æðstu stjórnenda í viðskiptalífinu og byltingar sem hafa orðið í jafnréttismálum á Íslandi,“ segir Sigyn.

Viðtökurnar hafa verið mjög góðar. „Það seldist upp á ráðstefnuna á miðvikudaginn sem er frábært. Við erum himinlifandi með að fylla Norðurljósasal Hörpu og þurfum ábyggilega að íhuga að hafa stærri sal á næsta ári.“

Sigyn bendir á að þótt staða jafnréttismála sé almennt góð á Íslandi í alþjóðlegum samanburði hafi viðskiptalífið setið eftir. „Þegar ég tala við erlenda vini mína þá hugsa þau bara um Ísland sem jafnréttisparadís og spyrja mig hvað ég sé að gera í þessu félagi. Þá segi ég frá því hvernig staðan er þegar kemur að því hverjir stýra peningunum og hverjir eru æðstu stjórnendur.“

Þannig séu konur aðeins ellefu prósent forstjóra hundrað stærstu fyrirtækja landsins og aðeins um 20 prósent af framkvæmdastjórum. Þá er engin kona forstjóri í skráðu félagi í Kauphöllinni.

„Þetta er svolítið sláandi tölfræði. Það er hægt að fjalla um jafnrétti frá mörgum sjónarhornum en við ákváðum í þetta skipti að ráðast á toppinn. Maður getur unnið að jafnrétti í grasrótinni endalaust en ef það skilar sér aldrei upp þá eru völdin alltaf á sama stað.“

Hún segist ekki hafa töfralausnina til að laga þetta. „Það er samt þannig að það þarf að gera hlutina. Ekki segja bara að þetta sé slæm staða heldur einmitt taka af skarið. Ef þú situr til dæmis í stjórn einhvers skráðs félags í Kauphöllinni að taka þetta fyrir á næsta stjórnarfundi. Spyrja hvort við ættum kannski að vera hugrakka félagið sem byrjar að stuðla að fjölbreytni.“

Tvær málstofur verða á ráðstefnunni auk fyrirlestra. Á fyrri málstofunni verður fjallað um byltingar samtímans og þau bakslög sem verða oft í kjölfarið. „Við munum ræða hvort það sé hægt að gera eitthvað til að koma í veg fyrir að bakslög fylgi byltingum og hvernig megi tryggja aðgerðir. Hlutirnir gerast oft svo hratt á Íslandi. Þú býrð til myllumerki á Twitter og allir eru tilbúnir að deila því og gera eitthvað. En svo er kannski eftirfylgnin ekki alveg til staðar.“

Síðari málstofan mun svo fjalla um bága stöðu hvað varðar kynjahlutfall æðstu stjórnenda og glerþakið.