Íslenska glíman hefur hlotið viðurkenningu Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) sem sérstakur hluti af af menningararfleifð Íslendinga.

„Þetta er viðurkenning af hálfu UNESCO á Íslandi á að íslensk glíma sé hluti af þjóðarhefð landsins og auðvitað langar okkur að fara lengra með þetta. Við teljum glímuna vera í stakk búna til þess,“ segir Svana Hrönn Jóhannsdóttir, formaður Glímusambandsins.

Hún segir viðurkenninguna færa glímunni ákveðna viðurkenningu, vernd og samþykki og opna um leið aðra glugga til framtíðar.Íslandsglíman er elsta íþróttamót landsins, sem hefur verið keppt á frá 1906 ef undanskilin eru fimm ár þegar fyrri heimsstyrjöldin gekk yfir.

Á heimasíðu UNESCO á Íslandi kemur fram að menningarleg fyrirbæri á listanum séu menningarminjar sem hafi sérstakt varðveislugildi. Hægt er að senda inn umsóknir og hefur fólk meðal annars sótt um að laufabrauð, slátur, þjóðdansar, ljóð, tröll og brúnaðar kartöflur komist á listann.

Svana segir viðurkenningu UNESCO mikils virði fyrir glímuna.„Þetta er um leið ákveðin kynning fyrir íþróttina, að vera þarna inni, og samþykki á okkar starfi. Við erum að berjast við fólk sem er að reyna að eigna sér þessa íþrótt eða breyta því sem er í okkar eigu. Þessi glíma sem við erum að æfa og keppa í er alíslensk frá grunni. Þetta er eitt af skrefunum sem við erum að taka til þess að taka íþróttina okkar til baka,“ segir Svana sem tekur undir að glíman sé ekki jafn sýnileg og oft áður.

„Íþróttin er því miður orðin örlítið falin, því starfið er í fullum gangi og mörg mót á hverju ári. Við erum auðvitað að berjast við aðrar íþróttir og afþreyingu,“ segir Svana og tekur undir að með þessu sé verið að undirstrika að íslensk glíma sé þjóðaríþrótt Íslendinga. „Við tölum alltaf um þetta sem íþrótt þjóðarinnar, enda er hvergi annars staðar keppt í þessari íþrótt. Það er hægt að rekja sögu glímunnar alveg aftur til landnáms og þetta er sennilega ein af elstu íþróttunum sem þekkjast.“