Þetta er hugmynd sem á ekki að persónugera. Allar hugmyndir eru afsprengi einhvers og ég hef aldrei litið á þær sem eign. Það væri svipað og að eigna sér talnaröð,“ segir Jón Hafþór Marteinsson um svokölluð bambahús sem hann býr til úr plastílátum sem kölluð eru bambar. „Ég er búinn að setja upp tvö hús í Bolungarvík, annað heima hjá mér, hitt er við aðalgötuna, gaf það bænum til að hvetja fólk til að huga að ræktun og sjálfbærni. Hér er búið að finna lausn til að gera einnota umbúðir verðmætar.“

Umbúðirnar eru 1.000 lítra tankar úr plasti og galvaníseruðu járni. Í þeim eru flutt inn alls kyns efni, meðal annars til matvælaframleiðslu. „Það eru þúsundir á ári sem flutt er inn af bömbum. Það er dýrt að farga þeim og þeir eru svo fyrirferðarmiklir að það svarar ekki kostnaði að flytja þá út aftur,“ upplýsir Jón Hafþór. Hann segir húsin þola meiri vind en flest önnur gróðurhús. „Þau eru með járnvirki, boltuð saman og tankana sker ég niður á sérstakan hátt. Neðri hlutinn er fylltur með vatni, 100-200 lítrum, það virkar sem þyngdarstuðull, varmajafnari og sjálfvirk vökvun fyrir þá mold sem er þar fyrir ofan.“

Það sem verkefnið vantar er fyrst og fremst aðstaða til að taka á móti bömbunum og smíða úr þeim. Til að það geti gengið vel þarf aðkomu innflytjenda og stjórnvalda. „Ég hef allan tímann hugsað þetta sem fjöldaframleiðsluverkefni. Fjárhagslega stendur það undir sér. Aðalávinningurinn er þó að efla vitundina um að rækta sjálf og finna verðmætin í ruslinu sem við eigum.“

Draumur Jóns Hafþórs er að svona bambahús fari inn á alla leikskóla og skóla svo krakkar læri að rækta sinn mat. „Þessi lausn ætti að tikka í öll boxin sem við erum að sækjast eftir,“ segir hann og ítrekar að hann vilji að hugmyndin standi en sé ekki eignuð honum persónulega.

Jón vonast til að komandi kynslóðir geti ræktað í gróðurhúsunum.