Við Siggi Flosa gáfum út okkar fyrsta disk fyrir tuttugu árum. Hann hét Sálmar lífsins og á honum voru mestmegnis bara venjulegir sálmar úr sálmabókinni,“ segir Gunnar Gunnarsson organisti og bætir við að þeir hafi tekið diskinn upp í Hallgrímskirkju. „Bæði saxófónninn og orgelið eiga langa hefð í sambandi við spuna. Það kemur engum á óvart í sambandi við saxófóninn en færri þekkja spuna á orgelið. Það hefur samt alltaf verið hefð að spinna á orgel í gegnum aldirnar og var gert löngu áður en djassinn varð til.“

Þetta er í raun formálinn að því sem málið snýst um núna, tónleikum sem þeir félagar ætla að halda í Hallgrímskirkju á morgun, fimmtudaginn 6. febrúar, og verða nánast upptakturinn að Vetrarhátíð. Þar ætla þeir að fagna samstarfi sínu og fá Mótettukórinn, með stjórnandanum Herði Áskelssyni, með í spunann.

Gunnar heldur áfram að rifja upp hið gjöfula samband þeirra Sigurðar sem hófst í Laugarneskirkju. „Við höfðum gaman af því að spila saman sálma,“ segir hann, „og líka að flétta þessi tvö ólíku hljóðfæri saman, orgelið og saxófóninn“. Hann segir að diskinum, Sálmar lífsins, hafi verið almennt mjög vel tekið. „Flestum fannst kveða við nýjan tón. En það voru kannski ekki allir kirkjunnar menn sem höfðu húmor fyrir þessum útsetningum og einhverjir töluðu um „meðferðina“ á sálmunum. Þó gerðum við þetta af fullri virðingu fyrir sálmalögunum, en útkoman féll sem sagt ekki í kramið hjá alveg öllum.“

Þeir Gunnar og Sigurður létu samt ekkert stoppa sig, gáfu út fleiri diska með sálmaspuna og spiluðu efnið líka töluvert erlendis,“ að sögn Gunnars. „Verkefnið hlóð dálítið utan á sig. Biskupsstofa aðstoðaði okkur við að ferðast um landið með þetta sálma­prógramm og spila það í kirkjunum með kórum á hverjum stað fyrir sig. Svo við erum búnir að spila í öllum landshlutum og meira en það.“

Einn diskurinn þeirra félaga heitir Draumalandið og hann geymir íslensk ættjarðarlög, leikin á orgel og saxófón. „Við gerðum þeim svipuð skil og sálmunum,“ útskýrir Gunnar. Spurður hvort þeir ætli svo að flytja sitt lítið af hverju í Hallgrímskirkju á morgun, svarar hann: „Já, við ætlum að spila einir til að byrja með, upp á gamla mátann, en nýjungin er fólgin í því að við fáum með okkur Mótettukór Hallgrímskirkju til að syngja sálmana, við spinnum í kringum þá og fáum líka kórinn til að spinna með. Það er kannski ekki það sem kórar gera venjulega en þetta verður voða skemmtilegt. Fyrsta korterið verður setning Vetrarhátíðar, svo komum við í kjölfarið og flytjum okkar dagskrá.“