Lagadeild Háskólans í Reykjavík fagnar nú um stundir tuttugu ára afmæli. Í tilefni þess verður í dag haldið málþing þar sem kennarar við deildina munu flytja erindi auk þess sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og útskrifaður lögfræðingur frá deildinni, flytur opnunarávarp.

Lagadeild HR var stofnuð árið 2002 og voru fyrstu nemendurnir útskrifaðir þaðan árið 2005. Eiríkur Elís Þorláksson hefur starfað sem forseti deildarinnar frá 2019.

„Áður en deildin tók til starfa fór lagakennsla á Íslandi nánast eingöngu fram við Háskóla Íslands,“ segir Eiríkur Elís. „Eitt af markmiðum deildarinnar var að skapa fleiri valkosti fyrir þá sem vilja stunda laganám á Íslandi. Við stofnun deildarinnar var talið að samkeppni á þessu sviði myndi efla lagamenntun í landinu og styrkja stöðu lögfræðinnar þjóðfélaginu til heilla.“ Það markmið hefur að mati Eiríks Elísar náðst á fyrstu tuttugu árum deildarinnar.

„Með heilbrigðri samkeppni milli háskóla og auknum rannsóknum á sviði lögfræðinnar hefur íslensk lögfræði eflst sem fræðigrein. Lagadeild HR hefur frá upphafi boðið upp á fyrsta flokks lagakennslu og rannsóknir,“ segir Eiríkur Elís sem telur að áhersla hafi verið lögð á nokkuð aðra nálgun við lagakennslu við lagadeild HR en áður var þekkt hér á landi. „Þar má meðal annars nefna verkefnamiðaðra nám. Þannig fer kennslan í lagadeild HR ekki eingöngu fram í fyrirlestraformi heldur með blönduðum hætti. Ég vil meina að tilkoma lagadeildar HR hafi svo um munar eflt lagakennslu svo og rannsóknir á Íslandi.“

Tuttugu ár eru stuttur tími

Eiríkur Elís segir íslenskan vinnumarkað hafa tekið laganemum HR opnum örmum.

„Kannanir sýna að okkar nemendur standa mjög vel að vígi á vinnumarkaði og hefur það raunar verið þannig frá fyrstu útskriftarárgöngunum,“ segir hann og vísar til kannana þar sem skoðað hefur hvernig nemendum hefur reitt af. „Kennarar okkar eru framarlega í rannsóknum. Svo njótum við góðs af stundakennurum úr atvinnulífinu, svo sem dómurum, lögmönnum og starfsmönnum úr stjórnsýslunni.“

Spurður um næstu tuttugu ár deildarinnar svarar Eiríkur Elís að til standi að halda áfram metnaðarfullu starfi innan lagadeildar HR og gera gott nám enn betra.

„Tuttugu ár fyrir lagadeild er tiltölulega stuttur tími en við stefnum að því að halda áfram að veita framúrskarandi þjónustu með kennurum í fremstu röð. Lögfræðin sem fræðigrein á í samkeppni við aðrar fræðigreinar svo og háskóla um heim allan. Mikilvægt er að öflug kennsla og rannsóknarstarf hér á landi hvetji til nýliðunar í hópi lögfræðinga og stuðli að því að kraftmiklir einstaklingar sækist áfram í slíka þekkingu.“