Þjóðhátíðin í Eyjum sem hafin er í Eyjum er sú 145. í röðinni, sem merkir að bráðum er hálf önnur öld liðin frá því sú fyrsta var haldin í Herjólfsdal, en það var árið 1874 þegar landsmenn fögnuðu þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, svo og því að fá í hendur fyrstu stjórnarskrá þjóðarinnar úr hendi sjálfs Danakonungs.

En munurinn var sá á Eyjamönnum og öðrum landsmönnum að þeir héldu hátíðinni áfram, árinu seinna – og hefðin festist svo rækilega í sessi á næstu árum, sem lagði grunninn að öllum síðari tíma Þjóðhátíðum í Vestmannaeyjum.

Undir þessum grunni má þó finna eldri hleðslur. Á árunum fyrir fyrstu Þjóðhátíðina hafði verið starfrækt eins konar herfylking í Eyjum undir forystu manns að nafni Andreas August von Kohl, oft nefndur Kapteinn Kohl, sem þótti einstaklega virkur í öllu félagsstarfi í bænum og stóð meðal annars fyrir hvítasunnu- og sumarhátíðum í Herjólfsdal að trúaðra manna hætti.

Að sögn heimamanna í Eyjum er líklegt að þessar skemmtanir herfylkingarinnar hafi orðið kveikjan að því að þjóðhátíð var síðar valinn staður í Dalnum góða.

Keppni Þórs og Týs

Fram eftir ofanverðri nítjándu öldinni var hátíðin haldin af og til, eftir efnum og aðstæðum, en á nýrri öld komst festa á hátíðarhöldin – og hefur Þjóðhátíðin með stórum staf verið haldin árlega frá árinu 1901, að styrjaldarárunum 1914 og 1915 undanskildum, en það var Kvenfélagið Líkn ásamt Knattspyrnufélagi Vestmannaeyja sem stóðu að hátíðinni fyrstu árin.

Allir bæjarbúar sem vettlingi geta valdið, hafa þyrpst inn í Dal til þess að gleyma um stund stritinu fyrir daglegu brauði.

Fyrsta Þórsþjóðhátíðin fór fram árið 1916 og svo fór, fáum árum seinna, að íþróttafélögin Þór og Týr tóku að skipta hátíðunum með sér frá ári til árs, Þór á sléttri tölu og Týr á oddatölu – og þar með var komin keppni um hvort félagið gæti haldið glæsilegri hátíð, enda félagsstarfið rekið fyrir ágóða Þjóðhátíðar næstu tvö árin á eftir.

Árni Johnsen leiddi fyrsta brekkusöng hátíðarinnar árið 1977.

Þessi samkeppni á milli félaganna varð til þess að Þjóðhátíðin þróaðist í að verða ein allra glæsilegasta útihátíð landsins ár hvert. Týr og Þór voru lögð niður í árslok árið 1996 og félögin sameinuð undir merkjum ÍBV. Frá árinu 1997 hefur ÍBV staðið fyrir Þjóðhátíð í Herjólfsdal.

Fyrsta brennan

Árið 1929 er fyrst getið um brennu á Fjósakletti, en varðeldar í Herjólfsdal höfðu tíðkast á Þjóðhátíðum í smærri stíl frá árinu 1908. Í skemmtilegri grein frá árinu 1931 um Þjóðhátíð sagði Árni Guðmundsson: „Allir bæjarbúar, sem vettlingi geta valdið, hafa þyrpst inn í Dal til þess að gleyma um stund stritinu fyrir daglegu brauði.“ Má nærri geta að hér hafi hugur fylgt máli.

Fyrsta Þjóðhátíðarlagið varð svo til tveimur árum seinna, 1931, samið af Oddgeiri Kristjánssyni, nema hverjum, sem setti saman lagið Setjumst að sumbli við texta Árna úr Eyjum. Þó eru til heimildir um að þrjú kvæði hafi verið frumsamin fyrir Þjóðhátíð árið 1905 og sungin á milli ræðuhalda af æfðum söngflokki.

Á þeim áttatíu og sex árum sem liðin eru frá því fyrsta Þjóðhátíðarlagið var flutt í Herjólfsdal eru lögin orðin sjötíu og sjö talsins.

Brekkusöngurinn á sér þó styttri sögu, þótt hann sé fyrir löngu orðinn að ómissandi hluta Þjóðhátíðar. Það var á fyrstu Þjóðhátíð eftir gos, árið 1977, sem Árni Johnsen sameinaði Þjóðhátíðargesti í fyrsta sinn í brekkusöng – og lengi vel var hann einráður með gítarinn sinn að vopni framan við þúsundir gesta í Dalnum, sem enn koma ár eftir ár, til að skemmta sér og sínum.