Hljóðmyndin í nýju tónverki Þuríðar Jónsdóttur tekur mið af hugmynd um framtíðina þar sem mannkynið hefur tortímt sjálfu sér. Enda nefnist verkið Leikslok. Það tekur 20 mínútur í flutningi og endar á nýrri hljóðupptöku frá gosinu í Geldingadölum eftir Magnús Bergsson. Verkið er á dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands á morgun.

„Það er mikið verkefni að ljúka stóru tónverki þar sem huga þarf að hverju hljóðfæri,“ segir Þuríður. „Ég mátti miða við fullskipaða hljómsveit, 70 manns. Það eru fjórir slagverksleikarar, það er harpa og píanó, öll strengjasveitin og þrefaldir blásarar, sem sagt þrjár flautur, þrjú klarinett og þrjár básúnur. Svo er ég með umhverfisupptöku. Það var ákveðið seint í ferlinu en passaði mjög vel inn í hljóðheiminn sem ég er með og hugmynd verksins um grunnnáttúruöfl þar sem manneskjan er ósköp lítið atriði.“

Til að fyrirbyggja misskilning tekur hún fram að mannskapurinn í Eldborg hafi mikið gildi, fjöldi manns verði á sviðinu og fiðluleikarinn Una í aðalhlutverki.

Það þurfti þolinmæði til að ná ómenguðu hljóði. Fréttablaðið/Anton Brink

Sumir spila með gúmmíhanska

Þuríður segir fiðlukonsertinn hafa verið pantaðan af Sinfóníunni.

„Ég fékk samning um það sem var mikill heiður, það eru komin þrjú ár síðan en frumflutningur hefur frestast. Við Una erum vinkonur og höfum átt þann draum í tíu ár að ég skrifaði fyrir hana fiðlukonsert fyrir Sinfó.“

Hún kveðst semja í huganum og skrifa á nótnaforrit í tölvu.

„Ég fer alltaf dálítið út fyrir hefðbundna notkun hljóðfæra og því er partur af vinnunni að heimsækja hljóðfæraleikara og prófa ýmislegt.

Við Una höfum farið saman út úr bænum í vinnubúðir og ég var búin að hitta hörpuleikarann og slagverksleikara. Nokkrir í hljómsveitinni eru með óvanalega stillingu á hljóðfærunum sínum í þessu verki og sumir spila með gúmmíhanska. Útkoman er svolítið eins og hljóðfærið sé að spila á manneskjuna, en ekki öfugt, þetta eru allt hlutir sem þarf að prófa og finna út hvernig eigi að skrifa nóturnar,“ segir Þuríður og vill að fram komi að sólóistinn Una sé ekki í hönskum og alveg með fiðluna sína stillta. „Ég hugsa þetta þannig að fiðlan sé í fókus en hljómsveitin svolítið blörruð eða í móðu. Þannig er dálítið af óhefðbundinni tækni í sumum hljóðfærum.“

Eins og hlusta á popp

Þrátt fyrir þessar tilraunir telur Þuríður verkið aðgengilegt og hlustendavænt.

„Þetta er bara eins og að hlusta á popptónlist, fólk opnar eyrun og þarf enga heimspeki eða sérstaka fagurfræðiþekkingu til að njóta. Bara að slaka á. Það er alveg bit í þessu verki, ég segi kannski ekki laglína en ýmislegt að hlusta á og horfa. Þá er ég nú bara að tala um hvernig sveitin er að spila.“

Spurð hvort hún hafi bætt gosinu við óvænt eða verið búin að hugsa sér annan endi með náttúruhljóðum segir Þuríður.

„Í öðru verki eftir mig sem heitir Farvegur heyrist í roki sem Magnús Bergsson tók upp fyrir mig. Mér hafði dottið í hug að nota bút úr þeirri upptöku. Svo kom gosið. Það var ekki auðvelt fyrir Magnús að fanga hreint hljóð frá því, ýmist var of mikill vindur eða margt fólk, en það tókst með þolinmæðinni.“