Valmar Väljaots er organisti í Glerárkirkju á Akureyri en spilar einnig með hljómsveitum; Hvanndalsbræðrum og hljómsveitinni Killer Queen sem spilar Queen-tónlist. Svo varð hann nýlega meðlimur í hljómsveitinni Angurvær.

Vill engan stimpil

Blaðamaður náði tali af honum á Akureyri og hafði orð á því að það væri ekki mjög organistalegt að spila Queen-tónlist. „Ég er ekki organisti, ég er tónlistarmaður. Ég vil ekki fá neinn stimpil á mig,“ svarar Valmar sem kom hingað til lands frá Eistlandi fyrir 25 árum. „Fyrsta hljóðfærið sem ég lærði á var fiðla og ég kom til Íslands til að verða fiðlukennari í tónlistarskólanum á Húsavík í eitt ár. Ég var beðinn um að vera lengur og samþykkti það, en síðan ári seinna var auglýst eftir organista á Húsavík. Afi minn spilaði á orgel í kirkju og mér fannst ég vera að taka við af honum þegar ég fékk starfið. Síðan þá hef ég einnig starfað sem skólastjóri, tónlistarkennari og organisti, fyrst á Laugum, svo í Mývatnssveit og nú síðustu árin á Akureyri.“

Spurður hvernig honum líði á Akureyri segir hann: „Akureyri er besti staðurinn fyrir mig, ég vil ekki fara suður. Ef ég færi suður færi ég til Keflavíkur og úr landi. Ég hef allt sem ég þarf á Akureyri. Hér er skíðabrekka, hér er hægt að veiða fisk, hér er golfvöllur og það tekur ekki langan tíma að fara frá stað A til B. Svo er ég búinn að vera hér svo lengi og kominn með nýja fjölskyldu, af hverju ætti ég að fara?“

Saknar hann aldrei Eistlands? „Það kemur mjög sjaldan fyrir. Ég er búinn að vera hér í 25 ár og Ísland er fyrir löngu orðið heimaland mitt. Eftir þennan langa tíma væri skrýtið ef mér fyndist það ekki. Föðurland mitt er Eistland og móðurmálið mitt er eistneska, en það eru tíu ár síðan foreldrar mínir dóu og ég lifi lífi mínu hér.“

Neitaði að skjóta úr byssu

Sem ungur maður var Valmar í sovéska hernum. „Það jákvæða við það var að ég áttaði mig á því hversu heimilismaturinn hennar mömmu var góður. Í hernum var allt hræðilegt og þar fóru tvö ár af lífinu til einskis. Ég var ungur maður, nýbúinn að klára skóla og var í toppformi í hljóðfæraleik. Í hernum neitaði ég að skjóta úr byssu og komst upp með það. Þetta var ekki skapandi tími. Í hernum voru menn með lítið vasadagatal og krossuðu yfir hvern dag, þeir voru að telja niður. Stundum er ég spurður hvort íslenskir strákar ættu að fara í herinn. Svar mitt er: Alls ekki, en það er fínt mál að fara í björgunarsveitaræfingar í þrjá mánuði.“

Spurður um andrúmsloftið í Eistlandi á æskuárum hans á tímum kommúnismans segir hann: „Mín kynslóð átti ekki óhamingjusama æsku, þrátt fyrir samfélagsaðstæður. Alls ekki. Það ríkti hins vegar mikið hatur í garð Sovétríkjanna. Það var allt harðlæst í landinu og maður þurfti að kunna „réttu“ svörin. En svo opnaðist margt 1988 og ég fór að ferðast ótrúlega mikið með kór og hljómsveitum. Ég hef ekki lengur jafn mikla þörf á að ferðast mikið því ég sá svo margt þá. Eistlendingar fögnuðu sjálfstæði á sínum tíma en mikið vorum við fljót að fara undir Brussel, þótt margt jákvætt hafi fylgt því. Samt er Eistland að missa ungt fólk úr landi.“

Undirbýr tónleika

Þessa dagana er Valmar að undirbúa tónleika með Hvanndalsbræðrum á Græna hattinum á Akureyri 1. ágúst og á sama stað verða tónleikar 2. ágúst með Killer Queen. Síðan heldur Killer Queen til Vestmannaeyja og spilar á Þjóðhátíð 3. ágúst.

Valmar spilar á fjölmörg hljóðfæri, aðallega á píanó, fiðlu og harmoniku en kann eitthvað á gítar, mandólín og básúnu. Með Hvanndalsbræðrum spilar hann á fiðlu og harmoniku og leikur á píanó með Killer Queen. „Ég hef alltaf verið tugþrautarmaður í tónlist. Tugþrautarmaður er ekki heimsmeistari í hástökki en getur stokkið tiltölulega hátt og líka varpað kúlu. Stundum finnst mér ég ekki kunna neitt en ég er maður sem bjargar sér,“ segir hann.