Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir er að spila á sellóið þegar ég hringi. Móðir hennar, Helga Bryndís Magnúsdóttir, svarar, kallar „Marta“ og réttir dóttur sinni símann. Hrafnhildur Marta er einmitt að æfa það sem hún ætlar að flytja eftir skamma stund þegar henni verður afhentur styrkur úr Minningarsjóði Jean-Pierre Jacquillat (1935-1986), stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

„Þetta er stutt og laggott verk sem ég ætla að spila,“ segir hún. „Það er fullkomið að geta þakkað fyrir sig með þessum hætti og líka vel við hæfi. Tónlistin getur tjáð svo margt sem maður á erfitt með að koma í orð, öllu þakklætinu fyrir heiðurinn sem mér er sýndur og þennan rausnarlega styrk. Hann er ein og hálf milljón og það munar aldeilis um það.“

Hrafnhildur Marta er 27 ára. Hún á til músíkalskra að telja, móðirin píanóleikari og faðirinn hljómsveitarstjórinn Guðmundur Óli Gunnarsson. Hún er víða búin að koma við í tónlistinni. Byrjaði ung að læra á selló við Tónlistarskólann á Akureyri og það hefur verið hennar hljóðfæri síðan. Hún segir mikið til af einleiksverkum fyrir það. „Við sellóleikarar erum ekki eina fólkið sem er hrifið af sellóinu, tónskáldin hafa verið það líka og þess njótum við,“ segir hún.

Síðustu vetur hefur Hrafnhildur Marta verið í Jacobs School of Music, háskóla í Indiana í Bandaríkjunum, og kveðst eiga einn vetur eftir í mastersnámi. Þar fókuserar hún á kammermúsík og er í strengjakvartett innan skólans sem hefur unnið hverja keppnina eftir aðra.

„Síðasta vetur fengum við vikudvöl í Beethovenhúsinu í Bonn í Þýskalandi að launum. Þar fengum við að gramsa í bréfum og upprunalegum handritum tónskáldsins og héldum tónleika í fæðingarhúsi þess,“ nefnir hún sem dæmi.

Fleiri verkefni hennar tengjast Beethoven því hún kveðst undanfarið hafa verið í upptökum hjá útgáfufyrirtækinu Naxus vegna afmælisútgáfu árið 2020 í tilefni 250 ára fæðingarafmælis hans. „Ég hef verið að taka upp skissur eftir Beethoven sem aldrei urðu að heilum verkum og hafa ekki verið teknar upp áður,“ nefnir hún.

Leið Hrafnhildar Mörtu liggur brátt til Bandaríkjanna aftur. Þar býr hún með kærastanum, Guðbjarti Hákonarsyni fiðluleikara. Hún segir þau stundum spila saman dúett. „Við kynntumst í Listaháskólanum fyrir nokkrum árum og höfum fylgst að síðan.“

Meðal fyrri styrkþega eru:

Jóhann Nardeau

Elfa Rún Kristinsdóttir

Víkingur Heiðar Ólafsson

Lára Bryndís Eggertsdóttir

Hrafnkell Orri Egilsson

Una Sveinbjarnardóttir

Árni Heimir Ingólfsson

Ingibjörg Guðjónsdóttir

Sigurbjörn Bernharðsson

Þóra Einarsdótti