Að sýna sig og sjá aðra, eftir Söndru Björgu Ernudóttur þjóðfræðing, er ein þeirra heimildamynda sem voru á dagskrá Skjaldborgar í ár. „Myndin mín fjallar um þorrablót. Ég fékk að vera fluga á vegg þegar Ólsarar fögnuðu þorranum síðasta vetur í félagsheimilinu Klifi og fylgjast með undirbúningi og framkvæmd blótsins,“ segir Sandra. „Ég fékk vinkonu mína, Þorgerði Ásu Aðalsteinsdóttur, til að græja tónlistina í upphafi myndar, þar er þorraþrællinn spilaður, en ég er framleiðandi og leikstjóri og sá um tökur og eftirvinnslu. Myndin er hluti af meistaraverkefni mínu í hagnýtri menningarmiðlun. Hún er í formi könnunarmyndar, þar eru engar útskýringar, heldur er áhorfandinn tekinn í ferðalag,“ útskýrir hún.

En hvernig datt Söndru þorrablót í hug? „Sú hugmynd kom út frá bakgrunni mínum í þjóðfræði. Þar lærði ég um ímyndarsköpun þjóða og þó svo endurvakta þorrablótshefðin okkar sé ekki ýkja gömul þá á hún sér fornar rætur. Þannig verður siðurinn menningararfleifð. Ég fann ágæta konu frá Ólafsvík sem var á Bifröst í menningarstjórnun. Hún var formaður þorrablótsnefndar í ár og algerlega til í að leyfa mér að mynda. Viku fyrir blót fór ég í dagsferð vestur, fylgdist með miðasölu og öðrum undirbúningi og var svo á staðnum frá fimmtudegi til sunnudags þegar verið var að leggja lokahönd á skemmtiatriði og skreytingar - og að sjálfu blótinu kom. Fylgst er með ferlinu frá miðasölu og þar til síðasti tónn er sleginn á ballinu um nóttina. Myndin endar á því að hljómsveitin Viggó þakkar fyrir sig.“

Sandra kveðst hafa valið þjóðfræði eftir hafa farið niður allan listann sem í boði var í HÍ og öðrum háskólum landsins. „Ég vissi ekkert hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór. Ákvað að skrá mig í þjóðfræði og fann mína hillu í lífinu. Það var mikil lukka sem stýrði því,“ segir hún og tekur fram að ekki sé allt fornt sem kennt er í þjóðfræði, námsefnið sé víðara en svo. „En í starfinu mínu núna í Árbæjarsafni er ég að kynna margt úr fortíðinni fyrir gestum og finnst það mjög skemmtilegt.“ En þykir henni þorramatur góður? „Mér finnst gaman að smakka hann og ákveðinn hátíðleiki í að borða hann á þorrablótum.“ –