Gönguhópur sem kallar sig Strandverði er 24 ára gamall að stofni til, hluti af honum byrjaði á að ganga Hornstrandir 1996 og þá varð nafnið til,“ segir Guðmunda Steingrímsdóttir sjúkraliði. Hún er sjálf einn Strandvarðanna og hóaði í hópinn nýlega til skrafs og ráðagerða, hann hafði skráð sig í Reykjavíkurmaraþonið í göngu til ágóða fyrir Alzheimersamtökin.

„Hópmaraþoninu var aflýst en fólki er heimilt að hlaupa eða ganga þegar því hentar og við ætlum að halda okkar markmiði 22. ágúst,“ lýsir Guðmunda. „Leiðin liggur úr Laugardalnum inn í Elliðaárdal, þar hring og til baka aftur. Þó enginn verði að fylgjast með og klappa þegar við komum í mark þá getur fólk treyst því að við stöndum okkur,“ bætir hún við hlæjandi en verður alvarleg aftur og segir Alzheimersamtökin vera öllum Strandvörðunum hugleikin. „Ein í hópnum fór með móður sinni á stofnfund samtakanna 1986 og gerðist strax félagi í þeim. Við eigum öll, eða höfum átt, einhvern nákominn með sjúkdóminn, hann er nánast í öllum fjölskyldum,“ segir Guðmunda. Hún kveðst vona að fólk heiti á Alzheimersamtökin gegnum síðuna hlaupastyrkur.‌is. „Reykjavíkurmaraþonið hefur alltaf verið stór tekjulind fyrir þessi samtök, eins og mörg önnur góðgerðafélög.“

Guðmunda starfar í Dagendurhæfingu Hrafnistu. Hún var ein þriggja kvenna sem stofnuðu fyrsta Alzheimerkaffið á Íslandi árið 2012 í Hæðargarði 31. „Við sköpuðum vettvang fyrir fólk með Alzheimer og skylda sjúkdóma og aðstandendur þess til að koma saman og sáum sjálfar um reksturinn í fjögur og hálft ár. Þá tóku Alzheimersamtökin við og nú er slík starfsemi komin víða um land.“