Í dag eru tíu ár liðin síðan Alþingi samþykkti lög sem fólu í sér að bannað væri að bjóða upp á nektarsýningar. Með því varð Ísland fyrsta ríki Evrópu til að banna slíka staði. Siv Friðleifsdóttir, þáverandi þingmaður Framsóknar, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en Siv tók við keflinu af Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrrverandi þingmanni og ráðherra sem hafði áður vakið athygli á málinu. Alls greiddu 31 þingmenn úr öllum flokkum atkvæði með banninu. Tveir þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum sátu hjá en aðrir þingmenn voru fjarverandi.

Á þessum tíma var reglugerðin um nektardansstaði fremur óljós og fengu nokkrir staðir undanþágu frá lögum til að bjóða upp á slíkar sýningar. Þegar mest var voru átta nektardansstaðir starfræktir á höfuðborgarsvæðinu. Lögin voru samþykkt 23. mars og ákveðið var að þau tækju gildi 1. júlí sama ár.

Mikið var fjallað um málið á sínum tíma, enda varð Ísland fyrsta land Evrópu til að banna slíkar sýningar. „Fyrst og fremst er ég ánægð með þá hugarfarsbreytingu og kúltúrbreytingu sem fylgdi löggjöfinni. Með henni tókst okkur að koma í veg fyrir að nektarsýningar festu sig í sessi hér á landi. Þær voru orðnar nokkuð sjálfsagðar á þessum tíma,“ sagði Siv og hélt áfram:

„Það skiptir svo miklu máli að breyta hugarfarinu, rétt eins og okkur hefur tekist að minnka unglingadrykkju og banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Þegar reykingar voru bannaðar á skemmtistöðum þá breyttist hugarfarið og kúltúrinn gagnvart þeim. Nú dettur ekki nokkrum manni í hug að fara aftur til fortíðarinnar. Þetta sýnir að hægt er að breyta hugarfari og menningu nokkuð fljótt ef viljinn er fyrir hendi.“

Að sögn Sivjar sýndu aðrar þjóðir þessu áhuga þótt þær hafi ekki fylgt honum eftir.

„Það var tekið eftir þessu og við fengum margar fyrirspurnir erlendis frá. Aðrar þjóðir fylgdu ekki eftir svo ég viti, en það voru umræður um þetta á norrænum vettvangi, man ég. Maður fann að til dæmis í Danmörku var nektardans orðinn svo rótgróinn í þeirra menningu að það var ljóst að það yrði erfitt að fá meðbyr. Þá sá maður hversu mikilvægt það var að stöðva þennan kúltúr, áður en hann festi sig í sessi á Íslandi.“