Sýningin samanstendur af verkum sem urðu til á síðasta ári. Í þeim er fegurð, kyrrð, stilla en samt alltaf hreyfing og breytileiki,“ segir Valgerður Björnsdóttir um myndlistarsýningu sem hún opnaði síðasta föstudag í Gallerí Göng/um í Háteigskirkju. Sýninguna nefnir hún Náttúrustemmur og þar getur að líta litrík einþrykksverk, sólarprent, silkiþrykk og ljósmyndaætingar með sögulegu ívafi.

Greinilegt er að Valgerður hefur margar aðferðir á valdi sínu. „Ég fór ekki í myndlist fyrr en á breytingaskeiðinu,“ segir hún glaðlega. Kveðst hafa verið í síðasta árgangi Myndlista-og handíðaskólans og náð að kynnast þar mörgum grafíkaðferðum en heilmikil þróun hafi átt sér stað. „Ég nota til dæmis sólarprent nú en áður var notuð sýra til að hægt væri að prenta plötu eins og ætingu, þannig að aðferðirnar eru orðnar mun náttúruvænni en þær voru.“

Valgerður segir þau hjón hafa keypt sér hús á Hólmavík fyrir þremur árum. „Bóndinn er búinn að koma sér upp trésmíðaverkstæði og ég get unnið þar líka en ég hef verið með vinnustofu á Korpúlfsstöðum og bíð eftir að fá aðstöðu í Gufunesi,“ lýsir hún. „En í gönguferðum mínum á Ströndum tek ég mikið af myndum í mikilfenglegri og síbreytilegri náttúrunni og nýti þær sem kveikju í verkin. Oftar en ekki verð ég uppnumin,“ segir hún. „Tilbrigði við náttúruna fljóta á einhvern hátt um textílverkin mín.“