Í dag eru þrjátíu og fimm ár liðin frá leiðtogafundi Ronald Reagan, Bandaríkjaforseta, og Mikhail Gorbachev, leiðtoga Sovétríkjanna, í Höfða.
Meginmarkmið fundarins var að ná samkomulagi um afvopnun kjarnorkuvopna þessara tveggja stórvelda sem háð höfðu kalt stríð um áratuga skeið og losa um spennu sem myndast hafði í samskiptum ríkjanna. Þrátt fyrir að markmið leiðtogafundarins hafi ekki náðst var hann þó þýðingarmikill liður í þeirri afvopnunarvegferð sem leiðtogarnir voru á.


Fundurinn vakti gríðarlega athygli hér á landi sem og í heiminum öllum enda markaði hann tímamót í torveldum samskiptum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Áhugasamir Íslendingar tóku virkan þátt í öllu því umstangi sem fundinum fylgdi og segja má að gripið hafi um sig eins konar leiðtogafundar-æði hér á landi.
Mikill viðbúnaður var vegna komu leiðtoganna. Stór hópur fylgdarmanna fylgdi leiðtogunum tveimur og mikill fjöldi blaðamanna fylgdu þessum merkisatburði eftir og augu heimsins beindust að litla húsinu sem kallast Höfði. Ráðist var í umfangsmiklar götulokanir í Reykjavík og vopnaðir verðir frá Íslandi, Bandaríkjunum og Sovétríkjunum voru við öllu reiðubúnir.


Eftir rúmlega tveggja klukkustunda langan fund stöldruðu Reagan og Gorbachev stuttlega við fyrir framan Höfða þar sem þeir tjáðu fjölmiðlum að fundurinn hefði misheppnast. Þeir félagar linuðust hins vegar eftir því sem árin liðu og viðurkenndu að fundurinn hefði sannarlega lagt grunninn að því að binda enda á kalda stríðið og hefja kjarnorkuafvopnun stórveldanna tveggja.