Forngripasafnið var stofnað á þessum degi árið 1863 með það að markmiði að varðveita íslenska gripi hér á landi. Fram að þeim tíma höfðu íslenskir gripir einkum verið varðveittir í dönskum söfnum. Einn helsti hvatamaðurinn að stofnun safnsins var Sigurður málari sem skrifaði hugvekju í Þjóðólf árið áður þar sem hann ítrekaði mikilvægi slíks safns til að varðveita menningararf Íslendinga.
„Fólk tengir ekki alltaf við að söfn skuli vera meðal elstu stofnana landsins,“ segir Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður en Þjóðminjasafn Íslands er ein af fjórum elstu stofnunum landsins. „Þetta er á þeim tíma sem söfn eru að verða til á 19. öld almennt og Sigurður málari er yfirleitt nefndur í því samhengi sem helsti hvatamaður því hann horfði til okkar menningar og þess sem við áttum, því sem gerir okkur að þjóð.“
Forngripasafnið var upphaflega til húsa á lofti Dómkirkjunnar en færðist oft um set þar til það fékk inni í risi Landsbókasafnsins við Hverfisgötu, þar sem nú er Safnahúsið, árið 1908. Eftir að lýðveldið Ísland var stofnað árið 1944 var ákveðið að reisa þjóðinni safnhús við Suðurgötu og var flutt þar inn sex árum síðar.
Skyggnst í helg vé
Í dag geymir Þjóðminjasafnið um eða yfir 350 þúsund muni, yfir 8 milljónir ljósmynda og hefur í umsjá sinni 82 hús sem eru staðsett víðs vegar um landið. Harpa segir að á 160 árum hafi safnið sankað að sér og bjargað ýmsum munum úr fórum alþýðunnar sem veita ómetanlega innsýn í íslenska menningu og efnivið til rannsókna um ókomna tíð.
„Á síðustu tveimur til þremur áratugum hefur Þjóðminjasafnið stækkað og nú er kjarnastarfsemi okkar á þremur stöðum þar sem starfa sérfræðingar á ólíkum sviðum,“ segir Harpa. „Ég tala oft um varðveislurýmin sem okkar helgasta vé, þetta eru mjög lokaðir staðir en á þessu afmælisári langar okkur til að bjóða almenningi að skyggnast bak við tjöldin og heimsækja þessi rými.“
Afmælisfögnuðurinn hefst í dag undir yfirskriftinni Skál í boðinu! Af því tilefni verður ókeypis inn á safnið til sunnudags auk þess sem gestum verður boðið upp á köku og lifandi tónlist. Afmælisdagskráin verður þó gegnumgangandi allt árið.
Torfbæir á heimsminjaskrá
Harpa nýtir tækifærið til þess að hvetja fólk til að ná í skottið á merkilegri sýningu safnsins sem lýkur um helgina.
„Þetta er síðasta sýningarhelgi sýningarinnar Á elleftu stundu sem segir frá rannsóknum dansks fræðafólks sem kom hingað til lands að skrásetja íslensk torfhús,“ segir Harpa. „Þetta er hluti af þessum tíma þegar torfhúsin okkar eru í rauninni að hverfa.“
Harpa segir sýninguna staðfesta mikilvægi þess að varðveita slíkan arf.
„Okkur þótti ekki eins vænt um hann og við kölluðum húsin moldarkofa, en í dag er torfhúsaarfurinn okkur mjög mikilvægur,“ útskýrir hún. „Við höfum ákveðnar væntingar um að við getum lagt hann fram og fengið hann samþykktan á heimsminjaskrá, það er stórt verkefni.“
Afmælisdagskrá safnsins má finna í heild á heimasíðu Þjóðminjasafnsins.