Forn­gripa­safnið var stofnað á þessum degi árið 1863 með það að mark­miði að varð­veita ís­lenska gripi hér á landi. Fram að þeim tíma höfðu ís­lenskir gripir einkum verið varð­veittir í dönskum söfnum. Einn helsti hvata­maðurinn að stofnun safnsins var Sigurður málari sem skrifaði hug­vekju í Þjóð­ólf árið áður þar sem hann í­trekaði mikil­vægi slíks safns til að varð­veita menningar­arf Ís­lendinga.

„Fólk tengir ekki alltaf við að söfn skuli vera meðal elstu stofnana landsins,“ segir Harpa Þórs­dóttir þjóð­minja­vörður en Þjóð­minja­safn Ís­lands er ein af fjórum elstu stofnunum landsins. „Þetta er á þeim tíma sem söfn eru að verða til á 19. öld al­mennt og Sigurður málari er yfir­leitt nefndur í því sam­hengi sem helsti hvata­maður því hann horfði til okkar menningar og þess sem við áttum, því sem gerir okkur að þjóð.“

Forn­gripa­safnið var upp­haf­lega til húsa á lofti Dóm­kirkjunnar en færðist oft um set þar til það fékk inni í risi Lands­bóka­safnsins við Hverfis­götu, þar sem nú er Safna­húsið, árið 1908. Eftir að lýð­veldið Ís­land var stofnað árið 1944 var á­kveðið að reisa þjóðinni safn­hús við Suður­götu og var flutt þar inn sex árum síðar.

Skyggnst í helg vé

Í dag geymir Þjóð­minja­safnið um eða yfir 350 þúsund muni, yfir 8 milljónir ljós­mynda og hefur í um­sjá sinni 82 hús sem eru stað­sett víðs vegar um landið. Harpa segir að á 160 árum hafi safnið sankað að sér og bjargað ýmsum munum úr fórum al­þýðunnar sem veita ó­metan­lega inn­sýn í ís­lenska menningu og efni­við til rann­sókna um ó­komna tíð.

„Á síðustu tveimur til þremur ára­tugum hefur Þjóð­minja­safnið stækkað og nú er kjarna­starf­semi okkar á þremur stöðum þar sem starfa sér­fræðingar á ó­líkum sviðum,“ segir Harpa. „Ég tala oft um varð­veislu­rýmin sem okkar helgasta vé, þetta eru mjög lokaðir staðir en á þessu af­mælis­ári langar okkur til að bjóða al­menningi að skyggnast bak við tjöldin og heim­sækja þessi rými.“

Af­mælis­fögnuðurinn hefst í dag undir yfir­skriftinni Skál í boðinu! Af því til­efni verður ó­keypis inn á safnið til sunnu­dags auk þess sem gestum verður boðið upp á köku og lifandi tón­list. Af­mælis­dag­skráin verður þó gegnum­gangandi allt árið.

Torf­bæir á heims­minja­skrá

Harpa nýtir tæki­færið til þess að hvetja fólk til að ná í skottið á merki­legri sýningu safnsins sem lýkur um helgina.

„Þetta er síðasta sýningar­helgi sýningarinnar Á elleftu stundu sem segir frá rann­sóknum dansks fræða­fólks sem kom hingað til lands að skrá­setja ís­lensk torf­hús,“ segir Harpa. „Þetta er hluti af þessum tíma þegar torf­húsin okkar eru í rauninni að hverfa.“

Harpa segir sýninguna stað­festa mikil­vægi þess að varð­veita slíkan arf.

„Okkur þótti ekki eins vænt um hann og við kölluðum húsin moldar­kofa, en í dag er torf­húsa­arfurinn okkur mjög mikil­vægur,“ út­skýrir hún. „Við höfum á­kveðnar væntingar um að við getum lagt hann fram og fengið hann sam­þykktan á heims­minja­skrá, það er stórt verk­efni.“

Af­mælis­dag­skrá safnsins má finna í heild á heima­síðu Þjóð­minja­safnsins.