Í dag er Safnanótt og opna þá fjölmörg söfn dyr sínar og bjóða upp á fjölbreytta dagskrá milli klukkan 18 og 23. Þjóðfræðingurinn Dagrún Ósk Jónsdóttir verður þá á faraldsfæti en hún byrjar á að fræða börn um leiki landnámsbarna og flytur síðar erindi um huldufólk.
„Það er verið að opna sýningu á Garðatorgi sem heitir Aftur til Hofsstaða og snýst um landnámið,“ segir Dagrún Ósk. „Þar má finna stóran myllustein sem hægt er að snúa til þess að ferðast um söguna frá landnámi og yfir til Garðabæjar eins og hann er í dag.“
Síðar stendur til að setja upp skilti í minjagarðinum Hofsstöðum en fornleifarannsóknir hófust á reitnum árið 1994 og fundust þar minjar af einum stærsta landnámsskála sem fundist hefur á Íslandi.
Horgemlingar reistir
Eftir að sýningin verður opnuð mun Dagrún Ósk ásamt Söndru Björk Jónasdóttur svo stýra örsmiðju fyrir yngri kynslóðina þar farið verður yfir leiki sem börn á landnámsöld kunna að hafa leikið.
„Við ætlum að byrja á að skoða aðeins hvaðan landnámsfólkið kom, útbúa kort til að rekja leið þeirra og merkja inn hluti eins og sæskrímsli og annað sem kann að hafa orðið á vegi þeirra,“ útskýrir Dagrún Ósk. „Svo ætlum við að fara yfir þessa leiki sem börn á þessum tíma kunna að hafa farið í.“
Og hvernig leikir voru það?
„Það er erfitt að segja til um það en það eru nokkrir sem þau hefðu getað farið í. Þau hefðu til dæmis getað klætt sig í skinnbrókina eða reist horgemling,“ segir Dagrún Ósk en á erfitt með að lýsa leiknum í orðum. „Þetta eru stórskemmtilegar líkamsþrautir þar sem fólk kemur sér fyrir í einhvers konar keng og reynir svo að reisa sig við – og verður þannig að horgemlingnum.“
Siðir manna og huldufólks
Síðar um kvöldið flytur Dagrún Ósk svo erindið Trúir þú á huldufólk? á Árbæjarsafni.
„Ég ætla aðeins að segja frá uppruna þessara fyrirbæra, hegðun þeirra, atferli og framkomu. Ég mun fara aðeins inn á hvernig hægt sé að þekkja huldufólk ef maður rekst á það á förnum vegi og hvort það sé í rauninni gott eða varasamt,“ segir Dagrún. „Ef maður sýnir huldufólkinu virðingu þá endar það oftast ekki illa og ef maður hjálpar því þá verðlaunar það mann iðulega. En ef maður gerir eitthvað á þess hlut þá kárnar gamanið.“

Þetta hljómar nú bara eins og dæmisaga um hvernig maður eigi að hegða sér í mannlegum samskiptum almennt.
„Það er óhætt að segja það! Kannski maður ætti að nota þetta sem leiðarvísi fyrir samskipti almennt, bæði við fólk og náttúru,“ segir Dagrún Ósk og hlær. „Þetta eru svo náttúrutengdar sögur og koma inn á þemu eins og að taka ekki meira en maður þarf og svona.“
Kvöldvaka og hagyrðingamót
Á Þjóðminjasafninu verður svo boðið upp á kvöldvökustemningu. Þar verður fluttur rímnakveðskapur upp á gamla mátann og með traustri hjálp frá Kvæðamannafélaginu Iðunni.
„Við fengum þessa hugmynd innanhúss um að hafa kvöldvöku – að bjóða fólki að upplifa gamla tímann í baðstofunni með myrkrinu og vetrinum,“ segir Jóhanna Bergmann hjá Þjóðminjasafninu sem hafði í kjölfarið samband við Báru Grímsdóttur, formann Iðunnar. „Við vildum viðra þessa hugmynd um að kveða kannski nokkrar rímur, segja nokkrar sögur og svona.“
Bára tók svo rækilega vel í hugmyndina að ákveðið var að manna fjögurra klukkustunda dagskrá þar sem meðal annars verður boðið upp á hagyrðingamót.
„Þau kunna þetta svo vel og hvað er betri vettvangur til að deila þessari list en á Safnanótt í Þjóðminjasafninu?“ spyr Jóhanna. „Hagyrðingamót eru gamall siður sem lifði langt fram á tuttugustu öld og lifir jafnvel enn úti á landi. Þarna er ákveðið eitthvað þema sem fólk kveður um hverju sinni og er látið ganga hring eftir hring.“
Nánar um dagskrá Safnanætur má finna á síðu 15. Dagskrána í heild má finna á reykjavik.is/vetrarhatid.