Edda Andrésdóttir las sinn síðasta fréttatíma á Stöð 2 í gær. Eftir fréttatímann kom Sindri Sindrason inn í settið og Edda var tekin í viðtal í Íslandi í dag þar sem hún fór yfir víðan völl. Þegar ljósin voru slökkt komu samstarfsaðilar hennar og skáluðu fyrir ferli hennar sem spannar hátt í 50 ár í fjölmiðlum.

Edda byrjaði á Vísi árið 1972 og kom víða við áður en hún hóf dagskrárgerð á RÚV. Hún færði sig yfir á Stöð 2 árið 1990 þar sem hún hefur látið ljós sitt skína allar götur síðan.

Edda byrjaði sinn síðasta dag á því að mæta í viðtal á Bylgjunni áður en hún kíkti yfir daginn á Stöð 2. Eftir fréttatímann mættu svo samstarfsmenn og aðrir til að skála. Hún segir að framhaldið sé óráðið. „Það er ekki alveg ákveðið hvað ég tek mér fyrir hendur en ég þarf að fara í tiltekt í bílskúrnum. Ætli ég byrji ekki þar,“ segir hún og hlær.

Hún segist stolt af að geta hætt sjálf. Það sé ekki sjálfgefið. „Ég byrjaði fyrir fimmtíu árum á Vísi og ég er búin að lesa fréttir í hartnær 35 ár, bæði á RÚV og svo á Stöð 2. Þar er ég búin að vera í 32 ár. Svo ætla ég að verða sjötug í lok árs og það byrjuðu einhverjar klukkur að klingja innan í mér, hvort þetta væri ekki bara orðið gott í fréttunum.

En mér líður vel því ég er lánsöm að taka þessa ákvörðun sjálf. Ég hef verið að melta þetta og það hefur verið aðdragandi að þessu. En það er lán að fá að taka þessa ákvörðun sjálf.

Ég er algjörlega tilbúin fyrir þessi tímamót og mér líður eins og það sé að hefjast einhver nýr kafli. Kannski stafar það af því að dyrnar standa mér opnar á Stöð 2, að gera hugsanlega einhverja þætti. Tíminn leiðir í ljós hvort af þeim verði,“ segir Edda.

Vigdís Finnbogadóttir og Edda ganga saman út úr Háskólabíói eftir að hafa séð kvikmyndina Okkar á milli árið 1982.

Hún segir að eldgosið í Vestmannaeyjum sé eftirminnilegasta fréttin sem hún sagði á sínum ferli. Þá var hún búin að vera eitt ár í fjölmiðlum og sagði fréttir fyrstu dagana. „Þetta eru eins og tindar. Eitthvað rís og maður man og hefur með sér en svo eru líka litlir hlutir sem voru ekkert endilega stórfréttir.“

Edda hefur alið upp heilu kynslóðirnar sem fréttalesari og hefur alltaf átt í miklu samskiptum við áhorfendur. „Mér hefur alltaf fundist gaman, þetta samstarf við áhorfendur. Sumir hafa sent mér póst eða hringt og það er yfirleitt alltaf skemmtilegt.

Ung blaðakona á Vísi árið 1975.

Ég man eftir einu símtali þegar mjög reið manneskja hringdi, sem mislíkaði eitthvað í fréttatímanum og hellti sér yfir mig. Ég skildi ekki af hverju. Ég kom ekkert nálægt þessu máli nema að lesa fréttina. En hún hélt að ég væri fréttastjóri af því ég hafði lesið fréttina. Þetta endaði á góðu nótunum og var mjög eftirminnilegt. Þetta er búið að vera allavega enda mörg ár.“

Hún segir að það sé ekki alveg víst hvort ferlinum sé formlega lokið í fjölmiðlum. Hún sé með nokkrar hugmyndir um þætti og dyrnar standa henni opnar á Stöð 2.

„Ég er með einhverjar óljósar hugmyndir um eitthvert áframhald,“ sagði þjóðareignin Edda skömmu áður en hún fór inn í fréttastúdíó Stöðvar 2 í síðasta skipti.