Guðný Anna er Vestfirðingur – Ísfirðingur og Strandamaður. Hún er samt ekki fyrir vestan núna heldur í Danmörku. „Ég er búin að vera með heimilisfesti hér síðan 1999 en mitt vinnusvæði er líka í Noregi og á Íslandi. Ég fæst aðallega við hjúkrun núna, en er líka leikskólakennari og listgreinakennari. Svo er ég að prjóna og selja vettlinga.“

Samt gefur Guðný Anna sér líka tíma til að skrifa, því nýlega komu út þrjár smábarnabækur eftir hana, bb.is greindi frá því. Bækurnar heita Lindís strýkur úr leikskólanum, Lindís og kúluhúsið og Lindís vitjar neta. Allar ríkulega myndskreyttar af syni hennar, Páli Jóhanni Sigurjónssyni, myndlistarmanni.

Guðný Anna segir bækurnar hafa verið lengi á leiðinni. „Sérstaklega sú sem fjallar um að vitja neta. Það efni var ég búin að hugsa um lengi og velta fyrir mér hvernig ég gæti best komið til skila,“ útskýrir hún. Kveðst sjálf hafa upplifað það sem barn að vitja neta fyrir vestan. „Faðir minn var stýrimaður, útskrifaður 1933, þannig að ég var alin upp við sjómennsku á Ísafirði. „Pabbi var það sem kallað er „mjúkur maður“ í dag, sérstaklega þegar maður fór með honum á skektunni út á sundið á Ísafirði í grásleppuna. Þá talaði hann oft um það sem nú flokkast undir mjúk mál. Líka um að bera virðingu fyrir náttúrunni og vinnunni sem fólk er í til að framfleyta sér. Hvaða vinna sem það er.“

Spurð hvort hún sé að kenna börnum að stinga af frá leikskólum í einni bókinni sinni, svarar Guðný: „Nei, en mikilvægustu árin í lífinu eru í frumbernsku og það er svo margt að brjótast um í kolli barna. Sum eru bara ekki tilbúin til að láta loka sig einhvers staðar inni. Ég er númer sex í röðinni í systkinahópi og systir mín var þremur árum yngri en ég, henni fannst hún misrétti beitt í leikfimi og gekk út, sagðist ekki ætla að vera þar lengur. Vissi af litla bróður sínum hjá langömmu og langaði þangað. Það hafa orðið á vegi mínum einstaklingar sem hafa innri þörf fyrir að brjótast út úr hefðbundnum aðstæðum.“

Voða gaman að vinna í fiski

Sjálf kveðst Guðný vera svo lánsöm að hafa þótt öll vinna skemmtileg sem hún hafi unnið um ævina. „Mér þótti meira að segja voða gaman að vinna í fiski, gerði það þegar ég að safna mér fyrir skólagöngu.“

Hún kveðst hafa átt heima á Ísafirði í 30 ár en þá hleypt heimdraganum til að mennta sig, fyrst í Fósturskólanum. „Svo átti ég heima tíu ár á Akureyri. Þegar ég kom þangað að taka við stórum leikskóla komst ég að því að skúringafólkið, sem skiptir svo miklu máli, hafði aldrei verið með þegar eitthvað var að gerast hjá starfsmannahópnum. Ég var ekki alin upp við slíkan aðskilnað heldur virðingu fyrir öllum.“

Á Ísafirði hafði Guðný Anna verið gangastúlka á gamla sjúkrahúsinu en fékk exem svo hún sneri sér þá að öðru, að eigin sögn. „En það blundaði í mér löngun til að stunda aðhlynningu og ég fór í hjúkrunarnám hér í Danmörku. Það starf hefur átt vel við mig.“

Allir hafa hæfileika

Þegar Guðný Anna var leikskólastjóri kveðst hún hafa áttað sig á að allir búi yfir heilmiklum hæfileikum, það þurfi bara að finna þá og virkja. „Eitt af sjö börnum okkar er myndlistarmaður, sá sem teiknaði myndirnar í bækurnar mínar. Hann var átta ára þegar við fluttum hingað út og ekki eins sjúkur í fótbolta og margir aðrir strákar, en fékk strax að njóta myndlistarhæfileika sinna í skólanum. Þar fékk hann að mála heilu veggina og leggja áherslu á sínar sterku hliðar.“

Sjálf kveðst Guðný Anna hafa haft mikinn áhuga á að læra að prjóna þegar hún var barn. Hún sé örvhent og lengi vel hafi enginn getað kennt henni það. „Ég var búin að fara í öll hús í götunni minni þangað til ég hitti gamla konu sem bað mig bara að setjast á móti sér. Þá náði ég þessu. Þetta er hugmyndaauðgi – að finna einhverjar leiðir.“

Eitt af áhugamálum Guðnýjar Önnu er að leyfa eldra fólki að vera heima eins lengi og það getur og heimsækja það bara nógu oft. „Í Noregi og hér í Danmörku er farið átta sinnum á sólarhring ef þess er þörf. Fólki hrakar oft ef það fer inn á stofnun og ég hef ekki hitt þá manneskju enn sem hefur langað á elliheimili,“ segir hún. „Mér finnst þetta gleymast í umræðunni.“

Að lokum spyr ég Guðnýju Önnu út í föðurnafn hennar, Annas. „Móðir hans pabba dó af barnsförum, hún hét Anna og faðir hans var svo hugvitssamur að skíra drenginn Annas. Það er bara eins og Jóna og Jónas.“