Það er þegar búið að kveikja á krönsunum hjá Tjörninni og við Hljómskálagarðinn. Fleiri ljós verða svo kveikt um helgina og mánaðamótin, en við reiknum með að allt verði orðið upplýst, jólalegt og fínt um miðjan nóvember, sem er hálfum mánuði á undan áætlun. Við ætlum að skreyta gróðurhúsið við Lækjartorg, setja jólaljósaþak í Austurstræti, ljósakúlustíg frá Laugavegi niður að Hljómskálagarði og margt, margt fleira,“ segir Dagur.

Samkennd meðal íbúa

Það er ekki aðeins skreytt í miðborginni en hafist er handa við að skreyta inni í úthverfum og segir Dagur 26 tré vera á leiðinni þangað. „Við ætlum að leggja sérstaka áherslu á Laugardalinn í ár og eins og venja er ætlum við að lýsa upp langa Fellastíginn í Breiðholti. Allt jólaskraut borgarinnar mun svo vera lengur en venjulega, til að auka birtu í borginni í skammdeginu og skapa samkennd meðal íbúa.“

Aðspurður um sérstakar athafnir segir Dagur sama hátt verða á og vanalega þegar kveikt verði á ljósum Oslóartrésins á Austurvelli og einnig þegar kveikt verði á Jólakettinum á Lækjartorgi. „En það er sannarlega hugmynd fyrir næsta ár að kveikja á öllum ljósunum á sama tíma.“

Fá að lifa lengur

„Við erum tveimur vikum á undan áætlun til þess að búa til jólastemningu í Reykjavík aðeins fyrr, af því að það er ekki vanþörf á að hafa eitthvað til að hlakka til á þessum tímum heimsfaraldurs. Miðborgin er sjaldan eins dásamleg og um jólin og þess vegna viljum við búa til huggulega stemningu með fullt af jólaljósum, sem við ætlum líka að hafa lengur. Við fáum líka margar góðar hugmyndir til okkar sem starfsfólk borgarinnar reynir að uppfylla eftir fremsta megni.

Jólaljósin fara fyrr upp nú í ár.
Það er hátíðleg stund þegar kveikt er á Oslóartrénu við Austurvöll.