Ég er hérna undir rússíbananum og ætla að finna mér aðeins hljóðlátari stað,“ segir Sjöfn Ingólfsdóttir þegar ég hringi. Spurð hvort hún sé búin að fá sér salíbunu svarar hún: „Nei, ég fór í rússíbana fyrir mörgum árum í Árósum og hét því að gera það aldrei aftur. En nú er ég komin með dóttur minni inn í lítið hús með þaki og sest á bekk. Erum hér átta saman og týndum nokkrum sem ætla í öll tæki. Það vantar aðeins eina litla fjölskyldu sem ég vildi að hefði verið með okkur en hún komst því miður ekki.“

Sjöfn er sem sagt stödd í Tívolíinu í Kaupmannahöfn og nýtur lífsins. Það á vel við að hún fagni áttræðisafmæli í Danmörku, enda fæddist hún undir dönskum kóngi, eins og hún orðar það sjálf. Stórafmælið gefur tilefni til að forvitnast aðeins um lífsgöngu hennar til þessa. Fyrst upprunann. „Ég segist alltaf vera Húnvetningur en er fædd í Reykjavík, á fæðingarheimilinu á Eiríksgötu, hjá Helgu Níelsdóttur ljósmóður. Þar fæddust líka þau tvö börn sem ég ól í heiminn ansi mörgum árum seinna. En níu mánaða gömul fór ég með móður minni norður í Húnavatnssýslu og ólst upp í Sólheimum í þáverandi Svínavatnshreppi. Þar var ég hjá ömmu og afa, Sigurlaugu Hansdóttur og Þorleifi Ingvarssyni sem ég kallaði aldrei annað en mömmu og pabba, en móðir mín, Lára Guðmundsdóttir, og stjúpfaðir, Sveinbjörn Jónsson, bjuggu alla tíð á Blönduósi og þar fæddust hálfsystkini mín. Ég er rík af hálfsystkinum og fóstursystkinum,“ segir hún.

Þó Sjöfn hafi ekki hitt móður sína og systkini daglega í uppvextinum segir hún hafa verið mikinn samgang milli heimilanna og hún hafi notið þess besta á báðum stöðum. „Ég var dekruð í Sólheimum og svo var ég elsta barnið þegar ég fór á Blönduós, það var mikill titill að bera. Ég átti bara dásamlega æsku. Ólst upp við venjubundin sveitastörf sem öll voru unnin með höndum. Ég er auðvitað búin að lifa tímana tvenna þó mér finnist ég ekki vera neitt afgömul en ég tel mig lánsama að geta horft til beggja heima.“

Sjöfn er fyrrverandi formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og varaformaður BSRB, fulltrúi launafólks í nefndum og ráðum. Spurð hvort hún hafi snemma orðið stéttvís svarar hún: „Ég veit það ekki. Pabbi Þorleifur var Framsóknarmaður af gömlu gerðinni, þeirri framfarasinnuðu stétt sem stofnaði kaupfélög og var félagslega sinnuð. Hann var mjög vinnusamur, var mikill talsmaður þess að fólk létti hvað undir með öðru og það var ofboðslega gaman að vinna með honum. En ég fór ung að heiman, var í gagnfræðaskóla á Sauðárkróki og flutti til Reykjavíkur fljótlega upp úr því. Þar fór ég fljótt að fylgjast með því sem vinstra fólk sagði og skrifaði, skráði mig í Alþýðubandalagið og síðan Vinstri græna.“

Smám saman kveðst Sjöfn hafa farið að skipta sér af verkalýðsmálum. „Eftir að hafa unnið í fiski, keyrt vörubíl og gert það sem til féll, fékk ég vinnu í Borgarbókasafninu og það er besta og skemmtilegasta vinna sem ég hef unnið. Þar gerðist ég bókavörður af lífi og sál, fór á öll námskeið sem ég gat og varð fljótlega trúnaðarmaður fyrir starfsmenn. Svo vatt það upp á sig og allt í einu var ég komin inn í fulltrúaráð og síðan stjórn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Í tímans rás varð ég formaður og var það í ansi mörg ár og þá um leið varaformaður BSRB, vann þar lengst og best með Kristjáni Thorlacius og Ögmundi Jónassyni. Þetta var góður tími og skemmtilegur. Ég sé ekki eftir einum degi.“

Aldrei kveðst Sjöfn hafa farið í framboð til Alþingis. „Það var ekki takmarkið,“ segir hún. „En ég hef unnið mikið fyrir Vinstri græna, verið svona í snúningum. Við Sigríður heitin Kristinsdóttir áttum oft heiðurinn af því að klósettin voru hrein og nóg af kaffi á könnunni. Vorum líka góðar í vöfflunum.“

Nú á Sjöfn heima í Mörkinni og kveðst njóta lífsins eins og aðrir sem þar búi. „Ég hef átt góða ævi,“ segir hún. „Ekki síst fyrir það að ég hef verið heilsuhraust og eignast góða vini.“