Gísli Pálsson, mannfræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands, flytur erindi í Gerðarsafni í hádeginu í dag undir yfirheitinu Geirfuglinn sem táknmynd aldauðans. Gísli er málefninu ansi kunnugur en á síðasta ári gaf hann út bókina Fuglinn sem gat ekki flogið. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, en þar rakti Gísli sögu síðustu geirfuglanna.

„Aldauðinn er vissulega sterkt orð. Það hefur oft verið talað um útdauða eða útrýmingu, en nú blasir við útdauði fjölda tegunda,“ segir Gísli. „Það er sjötta bylgjan í sögu plánetunnar af því tagi, í þetta sinn af mannavöldum. Það er því full ástæða til að taka sterkt til orða.“

Sérstök táknmynd

Í erindi sínu mun Gísli fjalla um geirfuglinn sem táknmynd aldauðans, en hann bendir á að fuglinn hafi ákveðna sérstöðu þrátt fyrir að önnur útdauð dýr eins og dódófuglinn eða risaeðlurnar séu vissulega sambærilegar táknmyndir.

„Um miðja nítjándu öld var aldauðinn sem hugtak varla þekkt og útrýming tegunda varla komin á dagskrá. Hugtakið var eldra en yfirleitt skildu menn dauða tegunda sem afleiðingu af náttúrulegum ferlum eins og eldgosum,“ útskýrir hann. „Það er geirfuglinn sem setur aldauðann á dagskrá í nýrri merkingu.“

Skömmu áður en að geirfuglinn varð útdauður komu bresku vísindamennirnir Wolley og Newton til Íslands í von um að rannsaka fuglinn sem þeir vissu að væri að verða sjaldgæfari.

„Þeir fundu enga geirfugla og komust ekki út í Eldey vegna veðurs,“ segir Gísli. „Þess í stað tóku þeir viðtöl við þá sem fóru í síðustu ferðina til Eldeyjar, tólf manns. Newton og Wolley skráðu þetta allt samviskusamlega og handritin eru til á háskólabókasafni Cambridge.“

Umhverfismál og samspil manna og dýra eru í brennipunkti í sýningu Bryndísar og Mark.
Mynd/Gerðarsafn

Þannig urðu þessi handrit og tíðindi frá Íslandi valdur að því að Newton tók aldauðann á dagskrá, nú á nýjum forsendum. „Það er maðurinn sem er að valda aldauða og það er að gerast hér og nú, fyrir framan nefið á okkur,“ segir Gísli. „Geirfuglinn sýndi í hvað stefndi.“

Ógn mannaldar

Eins og gefur að skilja er aldauðinn sem blasir við þó öllu stórtækari en saga geirfuglsins.

„Í dag eru aðrir hlutir að verki. Hamfarahlýnun, skógareldar og allt þar fram eftir götunum valda því að í dag er heil bylgja af brottfalli tegunda að eiga sér stað, af allt annarri stærðargráðu en sést hefur á tíma mannsins,“ segir Gísli. „Margir tala um mannöld, sem byrjaði með plantekrum og iðnvæðingu, en einkennist af því að maðurinn er að setja mark sitt á plánetuna. Það eru jöklar, skógar og hafið og allt saman. Þessi aldauði er eitt einkenna þessarar mannaldar.“

Erindi Gísla er haldið í tengslum við yfirlitssýningu á verkum Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson sem ber heitið „Óræð lönd: Samtöl í sameiginlegum víddum“ þar sem samspil manna, dýra, náttúru og umhverfis eru í brennidepli.

„Ég sá þessa sýningu fyrir nokkrum vikum og það var mjög gaman,“ segir Gísli „Bryndís og Mark, sem eiga heiðurinn af sýningunni, hafa verið upptekin af ísbirninum, og hafa verið það áður en hann varð að þessari táknmynd aldauðans þegar sást að það stefndi í óefni á norðurslóðum. Þau hafa síðan fylgt þessu eftir á mjög athyglisverðan hátt.“