Í dag fer fram svokölluð Hljóðgervlamessa eða Synthabæli í Borgarbókasafninu Grófinni. Viðburðurinn er haldinn í tilefni þess að alþjóðlegi hljóðgervladagurinn er handan við hornið, en sá dagur er miðaður við afmæli Roberts Moog sem bjó til fyrsta nútímahljóðgervilinn.

„Þetta hittir ekki alveg á afmælisdag Moogs en við reyndum að hafa þetta á svipuðum tíma. Við verðum með tíu til tólf sýnendur sem koma úr mismunandi hornum í tónlistarsenunni,“ segir Karl James Pestka, verkefnastjóri verkstæða Borgarbókasafnsins. „Það verða líka einhverjir þarna sem hafa verið að fikta í hljóðgervlum heima hjá sér og jafnvel búa til sína eigin.“

Á messunni verður gestum og gangandi boðið að kynna sér og prófa allskyns hljóðgervla sem tónlistarfólkið stillir upp. Meðal þátttakenda verða Steinunn Eldflaug Harðardóttir (dj. flugvél og geimskip), Hljóðfærahúsið, Hákon Bragason, Hekla Magnúsdóttir, Hallmar Gauti Halldórsson og Atli Már Þorvaldsson (Orang Volante og Intelligent Instruments Lab.).

Allir fá að prófa

Að sögn Karls James er með viðburðinum verið að fagna hinum mörgu kostum hljóðfærisins, meðal annars hve aðgengilegur hljóðgervillinn er.

„Moog gerði þetta að pakka sem fólk gat tekið heim með sér og tók ekki hálft herbergi,“ segir Karl James. „Andinn sem við erum að reyna að skapa hérna er að allir eiga að fá aðgengi að svona tækni. Þótt þú leggir þetta ekki fyrir þig þá áttu að geta prófað það og prófað eitthvað sem er nýtt með fjölskyldunni.“

Karl James segir messuna ætlaða byrjendum og lengra komnum.

„Það kom fullt af krökkum hérna síðast sem höfðu mjög gaman af þessu. Hekla Magnúsdóttir kom með þere­mínið sitt sem vakti mikla lukku, enda kemur úr því svo skemmtilegt hljóð.

Dyr Synthabælisins opna kl. 13 og stendur messan yfir til kl. 16.

Hljóðgervill Moog

Robert Moog var bandarískur eðlisverkfræðingur sem er hvað þekktastur fyrir að hafa fundið upp hinn svokallaða Moog-tóngervil (e. synthesizer) sem kom á markaðinn árið 1964. Fram til þess tíma höfðu hljóðgervlar verið flóknir og fyrirferðarmiklir en Moog tókst að gera þá meðfærilega og aðgengilega almenningi.

Moog var sparsamur á einkaleyfi og hefði eflaust getað orðið gríðarlega ríkur ef hann hefði fest einkaleyfi á öllum nýjungum sínum. Fyrir vikið var aðgengileiki hljóðgervilsins undirstaðan fyrir byltingu í tónlistarheiminum og líta margir svo á að uppfinningar Moog hafi verið mótandi fyrir popptónlist síðari tíma.

Robert Moog
Fréttablaðið/Getty