Mér finnst það mikill heiður að vera valin til að taka þátt í sýningu listafélagsins Køge Bugt. Það er að halda upp á fimmtíu ára afmæli og opnar vatnslitasýningu í tilefni af því núna á laugardaginn, 21. september,“ segir Jónína Magnúsdóttir myndlistarkona kampakát.

Jónína er vel þekkt undir listamannsnafninu Ninný. Hún starfaði í Norræna vatnslitafélaginu tæp sex ár og rekur heiðurinn sem listafélagið Køge Bugt sýnir henni til þess. „Þetta var formlegt boð og ég þurfti að skrifa undir samning.“

Hún segir alla listamennina sem hún sýnir með vera þekkta innan myndlistarinnar. Nokkra þeirra þekki hún persónulega fyrir. „Flestir eru frá Norðurlöndunum og Danir eru fjölmennasta þjóðin en einn er frá Spáni, annar frá Belgíu og ég er ein frá Íslandi.“

Ein af nýju myndunum sem Ninný málaði á ameríska yupo-pappírinn.

Sýningin verður í Portalens Galleri í Greve sem er í nágrenni Kaupmannahafnar. „Mikið væri nú gaman að hitta einhverja Íslendinga á opnuninni,“ segir Ninný glaðlega. Hún kveðst hafa farið með tíu myndir frá Íslandi til að hengja þar upp. „Ég hef verið að vinna vatnslitaverk á nýjan pappír sem heitir yupo og er ólíkur hefðbundnum vatnslitapappír. Ég er nokkuð viss um að norrænu þjóðirnar hafa ekki séð mikið af verkum sem unnin eru á þennan hátt og hlakka til að sýna þau.“

Ninný kveðst panta yupo-pappírinn frá Bandaríkjunum. „Það er allt öðruvísi að vinna á hann en hefðbundinn vatnslitapappír sem drekkur svo mikið í sig. Þessi er svolítið húðaður þannig að litirnir koma allt öðru vísi út og áferðin verður önnur.“

Þessa dagana, áður en sýningin verður opnuð, tekur Ninný þátt í því sem kallast Fri Akedmi. „Þar erum við fjórtán listamenn að vinna með vatnsliti í góðu yfirlæti í fjóra daga. Það er fínasta veður og við getum unnið úti af og til, það er langskemmtilegast.“

Hún segir vatnslitamálun að aukast á Íslandi. Ekki sé þó jafn sterk hefð fyrir henni og á hinum Norðurlöndunum. „En það er þó búið að stofna Vatnslitafélag Íslands.“

Þegar Ninný kemur heim kveðst hún fara beint í að leggja lokahönd á undirbúning listamessu á Korpúlfsstöðum, sem haldin verði fyrstu helgina í október á vegum Sambands íslenskra myndlistarmanna. Það verður annað árið í röð sem hún er á dagskrá. Þar ætlar Ninný að sýna hálf-abstrakt olíumálverk. „Þau eru unnin á allt annan hátt en vatnslitamyndirnar,“ segir hún og bætir við: „Það hentar mér vel að hafa fjölbreytni í vinnunni og ná tökum bæði á vatnslitum og olíu.“