Það er ekki auðvelt að vera með veislur á COVID-tímum, svo ég held bara upp á afmælið allt árið,“ segir Guðbjörg Lind Jónsdóttir myndlistarkona sem varð sextug í febrúar. Hún ætlar að opna sýninguna Brot af heild – á mörkum hugar og náttúru þann 8. maí á Hlöðulofti Korpúlfsstaða. Sú sýning er upptaktur útgáfu samnefndrar bókar í ágúst.

„Ég hef verið að safna ýmsu frá ferlinum í þessa bók, mest eru það myndir af verkum og síðan segi ég frá, en flestir textarnir eru eftir aðra,“ lýsir hún.

Áskorun að stilla upp

Nú er Guðbjörg Lind nýstigin upp úr nokkurra daga lasleika eftir COVID-sprautu en kveðst vera svo heppin að hafa verið komin með myndverkin sín á Hlöðuloftið á Korpúlfsstöðum áður, og búin að finna út hvar þau pössuðu þannig að þau sköpuðu hennar hugarheim.

„Þetta er spennandi rými en það er líka mikil áskorun að stilla upp því víða er plássið undir súð. Sums staðar er gríðarlega hátt til lofts og þar get ég nýtt hráa steypuveggina fyrir verk sem ég vann á Spáni fyrir kirkjuna í Santiago De Compostela. Við sýndum þar þrjár saman, Kristín frá Munkaþverá, Guðrún Kristjánsdóttir og ég, við erum lítill gjörningaklúbbur. Ég hef verið líka í sjö manna listahópi sem hefur ekkert nafn en var á tímabili kallaður Kvennabragginn og öðru tímabili Lýðveldishópurinn. Við höfum farið víða og sýnt í óhefðbundu rými,“ segir Guðbjörg Lind sem á fjölda sýninga að baki, bæði hér á landi og erlendis.

Ólst upp með lykt af litum

Guðbjörg Lind er Ísfirðingur og segir það hafa verið fjarlægan draum í uppvextinum að geta unnið við myndlist.

„Á þeim tíma var lítið um sýningar á Ísafirði en ég ólst upp með lykt af olíulitum því pabbi var áhugamálari og því var líka mikið til af bókum um eldri meistara og frumkvöðla í myndlist. Það hafði áhrif. Það var olíukynding hjá okkur, ofnarnir í stofunni voru sléttir og við systkinin undum okkur við að leggja vélritunarpappír upp að ofnunum og teikna myndir með vaxlitum sem bráðnuðu í hitanum. Við fengum frekar frjálst og skapandi uppeldi og hvatningu, enda hafði ég alltaf gaman af að teikna, eins og gamlar skólabækur sýna. Sautján ára var ég komin inn í Myndlista- og handíðaskólann og stefndi á myndmenntakennarann. Þegar ég var búin með tvö ár þar og átti eitt eftir vissi ég að ég yrði að fara í málaradeild og tók þrjú ár þar. Þá varð ekki aftur snúið.“

Landslagið á Vestfjörðum veitti Guðbjörgu Lind innblástur, einkum til að byrja með.

„Vestfirska landslagið var sterkt í verkum sem ég sýndi fyrst, 1988. Það voru fossaverk með háum fjallshlíðum og yfirleitt var bara smá himinræma efst. Ég pældi ekkert í því þá. Seinna hafa komið inn eyjar og víðara landslag. Einu sinni sýndi ég þjóðsagnakennd verk í Vigur í Ísafjarðardjúpi sem maðurinn minn, Hjörtur Marteinsson, bjó til texta við. Ég keypti nokkur borð í Góða hirðinum, bjó til úr þeim málaraskúlptúra og kallaði sýninguna: Lagt á borð fyrir vætti sjávar.“