Ís­lendingar geta notið hinnar rómuðu ballett­sýningar eftir Helga Tómas­son um Rómeó og Júlíu á hverju kvöldi næstu þrettán kvöld á vef­síðunni lincolncenter.org - eða til og með 25. maí. Sýningarnar hefjast klukkan 21.30, öll kvöldin og það eru dansararnir í San Francisco ballettinum, undir list­rænni stjórn Helga, sem flytja verkið, við tón­list Sergei Prokofi­ev. Í aðal­hlut­verkum eru Da­vit Kara­pe­ty­an og Maria Kochet­kova.

„Ballettinn Rómeó og Júlía krefst mikils sviðs­út­búnaðar og við þurfum stórt svið,“ segir Helgi þegar ég heyri í honum í síma, í til­efni þessa við­burðar fyrir okkur Ís­lendinga. Það skýrir af hverju ekki er hægt að sýna ballettinn á Ís­landi nema nota tæknina. „Hann hefur verið settur upp í Los Angeles, Was­hington D.C. og víðar. Ég var síðast með hann í Kaup­manna­höfn í októ­ber og byrjun nóvember 2019, í óperu­húsinu þar. Það tókst alveg stór­kost­lega vel,“ segir Helgi. „Ég var mjög á­nægður.“

Það var árið 1994 sem ballettinn var frum­sýndur, að sögn höfundarins. „Sýningin hefur lifað í tuttugu og sex ár og er alltaf jafn vel sótt, ég held að vin­sældirnar hafi frekar aukist en hitt. Ballettinn átti að vera í sýningu í vetur en þá var öllu lokað. Ég býst við að ef leik­húsið verður opnað á næsta ári þá fari hann í sýningar, en það líða oft tvö til þrjú ár á milli.“

Maria Kochetkova er í hlutverki Júlíu í sýningunni sem streymt er til okkar.

Helgi er í sjálf­skipaðri sótt­kví, á­samt konu sinni Mar­lene. En þennan dag sem ég hringi á hann fund um verk­efni sem er fram undan hjá honum og hann er ný­kominn úr sjón­varps­við­tali í San Francisco, á­samt tveimur dönsurum, svo eitt og annað nær hann að gera. „Við erum ekki í borginni sjálfri heldur í sumar­bú­stað utan við hana. Hér erum við með fal­legan garð og getum gengið um ná­grennið, sjáum sjaldan til fólks og þegar það gerist þá vinkum við bara,“ lýsir hann glað­lega. Inntur eftir veðrinu svarar hann: „Í gær var rúm­lega 30 stiga hiti. Það er heldur of heitt fyrir mig.“

Hann kveðst reyna að fylgjast með fréttum á Ís­landi. „Það er sér­lega á­nægju­legt hvað virðist ganga vel að ráða við CO­VID-19 heima,“ segir hann. „En ég velti fyrir mér hvernig Ís­lendingum reiðir af þegar ferða­menn fara aftur að koma til landsins.“

Helgi hefur verið list­rænn stjórnandi hins virta San Francisco balletts í þrjá­tíu og fimm ár. Hann segir síðustu vikur hafa verið erfiðar hjá ballett­flokknum, eins og öðrum. „Við misstum meira en 60% af sýninga­tíma­bilinu, leik­húsið er lokað og svona verður þetta að minnsta kosti til loka maí, svo á að sjá til. En ég er alltaf með fundi á hverjum morgni og við erum af­skap­lega á­nægð með að hafa getað streymt ballettum í hverri viku á netinu.“

Lincoln Center í New York er heimili menningarstofnana á borð við New Yorkfílharmóníuna, Metropolitan-óperuna, New York-ballettinnn og Juilliard listaskólann.
Fréttablaðið/Valli