„Stórveisluáformin fóru út um þúfur vegna ásóknar veirunnar. Ég hugsa að hátíðahöldin frestist um tvö ár. En þá verður tekið á því,“ segir Aðalsteinn Eiríksson, fyrrverandi skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, sem er áttræður í dag. Hann segir aldurinn fara vel í sig.

„Ég er við góða heilsu, syndi, spila borðtennis og geng. Les minna en áður, sjónin er farin að þreytast og tölvuskjárinn tekur tíma og orku sem ég notaði áður til að lesa. En ég stytti mér stundir með grúski í efni Þjóðskjalasafnsins, það er svo mikið komið á netið; kirkjubækur, handrit og alls konar fróðleikur.“

Verkefnið segir Aðalsteinn vera framhald bókar um uppeldisstað sinn á Núpi í Dýrafirði. „Faðir minn var þar skólastjóri og prestur og ég skrifaði sögu Núpsskóla fyrir nokkrum árum. Nú er ég að pæla gegnum íbúaþróun í Dýrafirði öllum. Ég var oft hjá afa og ömmu á Gemlufalli og get yljað mér við minningar um að hafa gengið á skinnskóm og borðað mikið af harðfiski og súru slátri.“

Aðalsteinn var nemandi í Núpsskóla, síðar kveðst hann hafa kennt þar einn vetur en flutt að vestan til háskólanáms. „Faðir minn gerðist þjóðgarðsvörður á Þingvöllum eftir veruna á Núpi og þar var ég við sumarstörf í nokkur ár og líka í síld á Siglufirði. Ég var kennari um langt árabil, síðar skólameistari og enn síðar ráðuneytismaður. En lærði sögu og landafræði líka í háskólanum og eitt stig í guðfræði.“

Varstu að spá í prestinn? spyr ég.

„Nei, við vorum sammála um það feðgarnir að guðfræðin væri betri undirbúningur undir kennslu en f lest annað,“ segir Aðalsteinn, sem er samt á því að besti parturinn af háskólanáminu hafi verið félagsskapurinn. „Mér finnst skemmtilegt að renna huganum yfir liðna daga,“ segir hann. „Það tilheyrir þessum aldri að maður hugsar meira um fortíðina en framtíðina.“

Honum finnst framvinda þjóðfélagsins hafa verið á jákvæðum nótum. „Allt mitt æviskeið hefur verið framfaraskeið. Fyrsta alvöru bakslagið er núna, en það er ekki okkur að kenna og úr öllu rætist um síðir.“ Í lokin er Aðalsteinn inntur eftir fjölskylduhögum. „Ég á konu og við eigum saman tvö börn, annað býr á Akureyri og hitt hér. Konan mín heitir Guðrún Larsen og er jarðfræðingur. Við förum kannski saman í smá jarðfræðileiðangur í dag. Við troðum engum um tær þar, það eru svo fáir á fjöllum.“