„Það er eitthvað í pípunum hjá mér. Nú er ég bara að rifja upp af hverju ég er búinn að missa síðustu tvö ár eða svo,“ segir matreiðslumeistarinn Sigurður Laufdal, sem varð í fjórða sæti á heimsmeistaramóti matreiðslumanna Bocus d´Or í Lyon í síðustu viku.

Fátt annað hefur komist að í lífi Sigurðar síðustu tvö árin en að undirbúa sig fyrir stóru stundina í Lyon. Með honum voru svo aðstoðarkokkar og þjálfarinn Þráinn Freyr Vigfússon. Sigurður segir að þetta hafi verið ótrúlegt ferli frá upphafi til enda og hjarta hans er fullt af þakklæti til allra sem komu að málum.

Kjötplatti Sigurðar var valinn sá besti en hann var smíðaður af Sign skartgripum. Á honum hvíldi svokallaður axlarvöðvi af frönsku nauti sem Sigurður brasseraði í heilu lagi. Aðeins tvær tegundir meðlætis máttu vera með kjötinu, auk sósu. „Fatið þróaðist mjög mikið frá fyrstu hugmynd, enda þróaðist maturinn einnig mjög mikið. Það var í raun ekki hægt að smíða fatið fyrr en allt var tilbúið mín megin.

Ætli við höfum ekki verið rúman mánuð í stanslausri vinnu að fikta í plattanum,“ segir Sigurður, sem hafði trú á plattanum um leið og hann sá útkomuna.

Fatið glæsilega.

Hann viðurkennir að það sé enn svolítið súrt að hafa endað í fjórða sæti, enda munaði aðeins þremur stigum á bronsverðlaununum. „Ég trúði á sjálfan mig og var viss um góðan árangur. Hausinn skiptir svo miklu máli í svona. Þessi tvö ár hafa snúist um þetta og auðvitað er gaman að enda í fjórða sæti, en það munaði svo litlu. Það eru 24 dómarar sem dæma matinn og 12 dómarar sem dæma eldhúsið og það munaði sáralitlu, sem er svolítið grátlegt og gerir þetta aðeins erfiðara,“ segir hann þó glaður með árangurinn.

Árangur Íslands í Bocus d´Or-keppninni er í raun ótrúlegur og tölfræðin segir að Íslendingar séu í hópi sex bestu þjóða í heiminum í matreiðslu. Í ár voru þekktar matarþjóðir eins og Ítalir og Japanir langt fyrir neðan Sigurð og félaga. „Við erum með fáránlega góðan árangur miðað við að við erum auðvitað smáþjóð.
Hér á Íslandi er mikill metnaður og kennslan í skólunum er góð.

Ég er mjög harður á því að Íslendingar séu góðir að elda. Þó það séu ekki margir Michelin-staðir hér á landi er mjög sjaldgæft að fara inn á veitingastað og fá vondan mat,“ segir Sigurður.

Þær Þórdís Björnsdóttir Thoroddsen og Hildur Ósk Sigurðardóttir frá Sign ásamt Birgi Einarssyni sem hannaði fatið. Sigurður Ingi Bjarnason eigandi Sign var með í hönnuni.