Tölvupóstur sem í gríni og alvöru hét: 15. neyðarfundur vegna tónleikahalds! gekk milli fólks í kórnum um daginn,“ segir Guðmundur Óli Gunnarsson, stjórnandi Kammerkórs Norðurlands, léttur. „Við gáfum nefnilega út disk síðasta haust sem heitir Á svörtum fjöðrum en það var ekki fyrr en nýlega sem við náðum að vera með útgáfutónleika fyrir norðan. Nú viljum við halda áfram, til að við verðum ekki í mörg ár með sama prógrammið, þó gott sé. Því er kórinn kominn suður og syngur í Skálholti á morgun og í Langholtskirkju í Reykjavík á sunnudag, klukkan 16 í báðum tilfellum.“

Kammerkórinn tók upp disk milli Covid-bylgna og flytur hluta af efni hans nú ásamt öðrum lögum.
Mynd/Aðsend

Þrískipt dagskrá

Að sögn Guðmundar Óla eru lög á diskinum sem samin voru sérstaklega fyrir kórinn, við ljóð Davíðs Stefánssonar.

„Þetta var gert af tvennu tilefni, 20 ára afmæli kórsins 2020 og 100 ára afmæli Svartra fjaðra, fyrstu ljóðabókar Davíðs, 2019,“ útskýrir hann. „Tónskáldin eru Hjálmar H. Ragnarsson, Hróðmar I. Sigurbjörnsson, Daníel Þorsteinsson, Snorri Sigfús Birgisson og ég á einhver líka. Svo frumfluttum við lag eftir móður mína, Guðrúnu J. Þorsteinsdóttur píanóleikara, við hið kunna kvæði Sestu hérna hjá mér, systir mín góð.“

Efni tónleikanna er þrískipt, að sögn kórstjórans, sem útskýrir það nánar.

„Það eru þessi nýju lög við ljóð Davíðs, líka lög frá Norðurlöndunum og fjögur lög við ástarljóð Páls Ólafssonar sem ég samdi. Þannig að fólk hér fyrir sunnan fær ekki að heyra öll lögin af diskinum en það er allt í lagi, það bara kaupir hann! Davíð er grunnurinn að þessu öllu saman.“

Kórfélagarnir

Kórfélagar tvístraðir

„Kammerkór Norðurlands þróaðist fyrir mörgum árum upp úr Söngdögum sem haldnir voru í Skálholti fyrir áhugasamt kirkjukórafólk. Svo söngmálastjóri þjóðkirkjunnar þá, Haukur Guðlaugsson, á eiginlega upptökin,“ segir Guðmundur Óli.

Sjálfur hefur hann búið sunnan heiða frá 2013 og segir það litlu hafa breytt fyrir starfsemi kammerkórsins því ólíkt mörgum kórum sé hann ekki með vikulegar æfingar.

„Það byggist á því að kórinn er skipaður atvinnusöngvurum að stærstum hluta, fólki sem er nótnalæst og vinnur sína heimavinnu. Við erum með fólk af svæðinu frá Skagafirði austur á Kópasker og tvo Norðlendinga búandi í bænum. Það er ekkert óklassískt að við hittumst kannski tvær helgar með nýtt prógramm og æfum saman og höldum svo tónleika.“