Skautafélag Reykjavíkur fagnar 130 ára afmæli sínu um þessar mundir þótt saga þess teygi sig enn lengra aftur. Fyrstu heimildir úr sögu félagsins eru frá miðri 19. öld þegar nokkrir nemendur úr Latínuskólanum stunduðu skautahlaup á Tjörninni.
Félagið var fyrst stofnað 1873 en hætti starfsemi einhverjum árum síðar. Skautafélag Reykjavíkur var síðan endurvakið 7. janúar 1893 og var aðalhvatamaðurinn þar að baki Axel V. Tulinius.
Skautaáhugi landans var mismikill á 20. öldinni en lengi hafði verið barist fyrir almennilegu skautasvelli sem varð að veruleika með tilkomu svellsins í Laugardalnum 1990 sem var svo yfirbyggt og vígt árið 1998 sem Skautahöllin. Þar verður einmitt stórafmæli Skautafélags Reykjavíkur fagnað næsta laugardag þar sem gestum og gangandi verður boðið frítt á skauta og í kaffi og köku.

Þétt setið svell
„Skautafélag Reykjavíkur er stærsta skautafélag á landinu og þar af er listskautadeildin sú stærsta og telur yfir 300 iðkendur,“ segir Bjarni Helgason hjá Skautafélagi Reykjavíkur. „Íshokkídeildin er í kringum 150 til 170 svo þetta telur hátt í 500 manns sem fjölgar jafnt og þétt.“
Bjarni segir ístímann vera helsta þröskuldinn í íslenskri skautamenningu í dag.
„Það er ekki eins og með fótboltann þar sem er farið út á gras og æft, heldur þarf alltaf að vera svell til að geta æft,“ segir hann. „Svellið okkar er þétt setið og þess vegna er helsta baráttumál félagsins núna að fá æfingasvell þarna við hliðina.“
Hugmyndirnar um æfingasvell segir Bjarni vera vel á veg komnar.
„Það var gerð forgangsröðun á íþróttamannvirkjum í Reykjavíkurborg fyrir nokkrum árum þar sem við skoruðum mjög hátt,“ segir hann. „Borgin hefur ítrekað að hún muni fara eftir þessari forgangsröð.“ Í því samhengi bendir Bjarni á að Skautafélag Reykjavíkur sé ekki hverfisfélag eins og flest íþróttafélög í Reykjavík.
„Þetta er svolítið eins og sundlaugar eða skíðasvæði – þetta er að þjóna öllu höfuðborgarsvæðinu,“ útskýrir hann. „Starfsemin hefur markast svolítið af því enda erum við með krakka úr Kópavogi, Hafnarfirði, jafnvel frá Reykjanesbæ og Hveragerði.“
„Fólk erlendis heldur alltaf að skautamenning sé mjög stór á Íslandi og það er oft tilkomið vegna Mighty Ducks“
Langlífur stimpill
Þrátt fyrir ýmsar áskoranir segir Bjarni skautaíþróttir á Íslandi standa mjög vel.
„Í íshokkíinu erum við sem dæmi að keppa við stórþjóðir í heimsmeistaramótunum þar sem Ísland hefur verið í kringum 30. sæti á heimslistanum sem er mjög gott miðað við hvað við erum fámenn,“ segir hann
„Ég held að gæðin séu mjög mikil í skautaíþróttum á Íslandi en það vantar bara fleiri svell.“
Þegar kemur að alþjóðlegri íshokkíímynd Íslands er ekki hægt að skauta fram hjá klassísku fjölskyldumyndinni D2: The Mighty Ducks frá 1994. Þar þurftu bandarísku hetjurnar að taka á hinum stóra sínum í úrslitaleik gegn svartklæddu skúrkunum í íshokkíliði Íslands.
Loðir þessi poppkúltúrstimpill enn þá við okkur?
„Já alveg klárlega,“ segir Bjarni og hlær. „Fólk erlendis heldur alltaf að skautamenning sé mjög stór á Íslandi og það er oft tilkomið vegna Mighty Ducks.“