Skauta­fé­lag Reykja­víkur fagnar 130 ára af­mæli sínu um þessar mundir þótt saga þess teygi sig enn lengra aftur. Fyrstu heimildir úr sögu fé­lagsins eru frá miðri 19. öld þegar nokkrir nem­endur úr Latínu­skólanum stunduðu skauta­hlaup á Tjörninni.

Fé­lagið var fyrst stofnað 1873 en hætti starf­semi ein­hverjum árum síðar. Skauta­fé­lag Reykja­víkur var síðan endur­vakið 7. janúar 1893 og var aðal­hvata­maðurinn þar að baki Axel V. Tulinius.

Skauta­á­hugi landans var mis­mikill á 20. öldinni en lengi hafði verið barist fyrir al­menni­legu skauta­svelli sem varð að veru­leika með til­komu svellsins í Laugar­dalnum 1990 sem var svo yfir­byggt og vígt árið 1998 sem Skauta­höllin. Þar verður ein­mitt stór­af­mæli Skauta­fé­lags Reykja­víkur fagnað næsta laugar­dag þar sem gestum og gangandi verður boðið frítt á skauta og í kaffi og köku.

„Svellið okkar er þétt setið og þess vegna er helsta bar­áttu­mál fé­lagsins núna að fá æfinga­svell þarna við hliðina.“
Fréttablaðið/Ernir

Þétt setið svell

„Skauta­fé­lag Reykja­víkur er stærsta skauta­fé­lag á landinu og þar af er list­skauta­deildin sú stærsta og telur yfir 300 iðk­endur,“ segir Bjarni Helga­son hjá Skauta­fé­lagi Reykja­víkur. „Ís­hokkí­deildin er í kringum 150 til 170 svo þetta telur hátt í 500 manns sem fjölgar jafnt og þétt.“

Bjarni segir ís­tímann vera helsta þröskuldinn í ís­lenskri skauta­menningu í dag.

„Það er ekki eins og með fót­boltann þar sem er farið út á gras og æft, heldur þarf alltaf að vera svell til að geta æft,“ segir hann. „Svellið okkar er þétt setið og þess vegna er helsta bar­áttu­mál fé­lagsins núna að fá æfinga­svell þarna við hliðina.“

Hug­myndirnar um æfinga­svell segir Bjarni vera vel á veg komnar.

„Það var gerð for­gangs­röðun á í­þrótta­mann­virkjum í Reykja­víkur­borg fyrir nokkrum árum þar sem við skoruðum mjög hátt,“ segir hann. „Borgin hefur í­trekað að hún muni fara eftir þessari for­gangs­röð.“ Í því sam­hengi bendir Bjarni á að Skauta­fé­lag Reykja­víkur sé ekki hverfis­fé­lag eins og flest í­þrótta­fé­lög í Reykja­vík.

„Þetta er svo­lítið eins og sund­laugar eða skíða­svæði – þetta er að þjóna öllu höfuð­borgar­svæðinu,“ út­skýrir hann. „Starf­semin hefur markast svo­lítið af því enda erum við með krakka úr Kópa­vogi, Hafnar­firði, jafn­vel frá Reykja­nes­bæ og Hvera­gerði.“

„Fólk er­lendis heldur alltaf að skauta­menning sé mjög stór á Ís­landi og það er oft til­komið vegna Mig­hty Ducks“

Lang­lífur stimpill

Þrátt fyrir ýmsar á­skoranir segir Bjarni skauta­í­þróttir á Ís­landi standa mjög vel.

„Í ís­hokkíinu erum við sem dæmi að keppa við stór­þjóðir í heims­meistara­mótunum þar sem Ís­land hefur verið í kringum 30. sæti á heims­listanum sem er mjög gott miðað við hvað við erum fá­menn,“ segir hann

„Ég held að gæðin séu mjög mikil í skauta­í­þróttum á Ís­landi en það vantar bara fleiri svell.“

Þegar kemur að al­þjóð­legri ís­hokkí­­í­mynd Ís­lands er ekki hægt að skauta fram hjá klassísku fjöl­skyldu­myndinni D2: The Mig­hty Ducks frá 1994. Þar þurftu banda­rísku hetjurnar að taka á hinum stóra sínum í úr­slita­leik gegn svart­klæddu skúrkunum í ís­hokkíliði Ís­lands.

Loðir þessi popp­kúltúr­stimpill enn þá við okkur?

„Já alveg klár­lega,“ segir Bjarni og hlær. „Fólk er­lendis heldur alltaf að skauta­menning sé mjög stór á Ís­landi og það er oft til­komið vegna Mig­hty Ducks.“