Það voru rúmlega fimm þúsund manns sem mættu í Hof, menningarhús Akureyrar, um nýliðna helgi á Local Food Festival, samkvæmt Davíð Rúnari Gunnarssyni, framkvæmdastjóra hátíðarinnar. „Sýningin er haldin annað hvert ár og er afsprengi Matur-Inn sýningarinnar sem haldin hefur verið á Norðurlandi til fjölda ára,“ segir hann. „Fáir viðburðir eru fjölsóttari á Norðurlandi.“ Davíð segir hátíðina eiga að endurspegla styrk Norðurlands sem stærsta matvælaframleiðslusvæði landsins. „Þarna er kjörinn kynningarvettvangur fyrirtækja og einstaklinga í geiranum til að vekja athygli á framleiðslu, matarmenningu, veitingastarfsemi, matartengdri ferðaþjónustu og verslun tengdri þessu.“

Davíð segir hátíðina hafa verið einstaklega vel heppnaða. „Fjöldinn allur af fyrirtækjum úr héraði voru með kynningar á sínum vörum. Markaðstorg var á svæðinu og Iðnaðarsafnið var svo með alls kyns gamlan varning úr matvælaiðnaðinum til sýnis, svo nokkuð sé nefnt.“

Á hátíðinni fór auk þess fram uppboð þar sem söfnuðust um 250.000 kr. til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. Á meðal þess sem boðið var upp var matarboð fyrir allt að tíu manns í boði Klúbbs matreiðslumeistara. „Kokkar úr Klúbbi matreiðslumeistara á Norðurlandi munu sjá um veisluna og mæta kokkarnir heim til viðkomandi með allt sitt hafurtask og elda þar fyrir viðkomandi," segir Davíð.