Svala Markúsdóttir fæddist 18.08.1955 á Sólvangi í Hafnarfirði. Hún var dóttir hjónanna Soffíu Sigurðardóttur og Markúsar Bergmanns Kristinssonar. Svala var fjórða í röð sjö systra, hinar eru: Helga (1951), Fjóla (1952), Hulda (1954), Lilja (1962), Árdís (1964) og Sædís (1975).

Svala giftist þann 27.12.1975 Leifi Jónssyni símsmið f.12.12.1954 - d.27.07.2012. Þau bjuggu lengst af í Hafnarfirði. Svala og Leifur eignuðust þrjú börn: 1) Ragnhildi f.22.11.1976 - d.18.03.1977; 2) Markús Bergmann f.05.01.1980. Sambýliskona hans er Karen Erna Ellertsdóttir. Sonur Markúsar er Egill Hrafn f.12.07.2005 og dóttir Markúsar og Karenar Ernu er Dísella Bergmann f.30.09.2012; 3) Sonju f. 24.06.1985, hún giftist Sveini Ómari Kristinssyni. Dóttir þeirra er Ragnhildur Laufey f.02.04.2005, þau skildu. Sambýlismaður Sonju er Jón Magnús Jónsson.

Svala lauk gagnfræðaprófi frá verslunardeild Flensborgarskólans í Hafnarfirði. Síðar lauk hún stúdentsprófi frá sama skóla og menntaði sig sem læknaritari og starfaði við það allar götur síðan, fyrst á bæklunardeild Landspítalans við Hringbraut og í Fossvogi. Síðustu árin starfaði hún sem læknaritari á Heilsugæslustöðinni Sólvangi í Hafnarfirði.

Útför Svölu fer fram föstudaginn 23. ágúst n.k. klukkan 15:00 frá Hafnarfjarðarkirkju.Elsku mamma mín í dag kveð ég þig í hinsta sinn.

Ég á erfitt með að trúa því að þú sért látin og að ég geti aldrei hitt þig aftur eða hringt til að spjalla um daginn og veginn. Við mamma vorum alltaf bestu vinkonur og brölluðum ýmislegt saman, alla sunnudaga þegar pabbi sat yfir fótboltanum fórum við saman í heimsóknir eða kíktum í kringluna, því ekki nenntum við að hanga yfir fótbolta.

Mamma var heimavinnandi þar til ég var 10 ára gömul, hún reyndi að hafa mig hjá dagmömmu á morgnana á meðan Markús bróðir var í skólanum svo hún fengi smá tíma fyrir sig en ég var engin morgun-manneskja og tók því ekki vel að vera vakin upp fyrir allar aldir svo hún gafst upp á því en fékk svo á endanum leikskólapláss eftir hádegi fyrir mig. Ég var alltaf hangandi í mömmu eða var allavega ekki langt frá henni. Hún og pabbi grínuðust með það seinna meir að ég væri ástæðan fyrir því að ég ætti ekki yngri systkini þar sem ég var svo forvitin og var seinust manna til að sofna á heimilinu.

Mamma var milkill húmoristi og hafði mjög svartann húmor ásamt því að hafa húmor fyrir sjálfri sér allt fram á seinustu daga. Til dæmis var ég með hana í fyrstu heimsókn inni á krabbameinsdeild þegar hún lítur á klukkuna og svo á mig og segir: „Jahhh það tekur því ekki fyrir mig að byrja að horfa á framhaldsþætti“. Svo sótsvartur var húmor hennar að stundum vissi ég ekki hvort ég ætti að gráta eða hlæja.

Hún var alæta á tónlist, allt frá gömlu góðu lögunum í þau allra nýjustu. S.O.B. var eitt af hennar uppáhaldslögum en hún sagði eitt skiptið þegar það kom í útvarpinu að hún yrði að hætta að hlusta á það um tíma því þegar hún söng og var að dilla sér mikið með því rauk blóðþrýstingurinn upp úr öllu valdi.

Mamma og pabbi voru mjög samrýnd enda voru þau gift í 37 ár þegar pabbi fellur frá. Árið 2012 þegar pabbi deyr var eins og hluti af mömu hefði dáið líka. Þó svo að hún lét ekki á því bera dagsdaglega að þá talaði hún um einmannaleika og að hún saknaði hans. Hún var algjör nagli og stundum of sterk að mér fannst, en það er kannski eðlilegt miðað við það sem hefur gengið á í hennar lífi.

Núna ertu komin aftur til pabba og Ragnhildar systur sem ég veit að þú varst orðin spennt að hitta aftur. Við sjáumst svo í sumarlandinu þegar minn tími er búinn hér.

Tárin renna
sorgin snertir hjartað mitt
lítið tré fellir laufin
eitt og eitt
uns þau hverfa ofan í jörðina
og koma ekki upp aftur.

Ég sé þig í huga mér
og dagurinn hverfur út í buskann
og eilífðin sjálf stoppar.
Ég kveð þig
með söknuð í hjarta og tár á hvarmi.

Eins og hörpustrengur er hjarta mitt
þegar ég hugsa um brosið þitt
eins og fallegur dagur sem kemur
og fer
mun stjarnan þín lýsa upp hjá mér
þetta er kveðjan mín
til þín
elsku besta mamma mín.
-Solla Magg

Þín dóttir Sonja