Við hleypum engum inn, leggjum ekki á fólk að taka séns á því. Höfum líka átt svo mörg skemmtileg afmæli og lifum á þeim. En ég vona að þú verðir nógu hress til að hringja í mig þegar ég verð 100 ára,“ segir kaupmaðurinn Magni Reynir Magnússon hress. Í dag eru 85 ár frá því hann kom í heiminn við Kárastíg í Reykjavík. Þá var nafnið hans sjaldgæft. „Ég ólst upp hjá afa og ömmu og var hjá þeim þar til ég var 27 eða 28 ára, þau héldu að ég yrði piparsveinn en þá kynntist ég Steinunni. Ég hef verið í góðum höndum allt mitt líf,“ segir hann.

Steinunn brosir. „Við höfum verið afskaplega hamingjusöm alla tíð,“ segir hún og kvartar ekkert þó að kófið hafi af þeim sundferðir og samneyti við fólkið sitt þessa dagana, en þau hjón eiga þrjú börn, barnabörn og barnabarnabörn. „Við förum í göngur saman og ferðumst í strætó og leigubílum ef við þurfum en höfum líka nóg að gera heima, Magni dundar í frímerkjunum og ég hugsa um heimilið – baka og þríf, sé um morgunmat, heitan hádegismat, þrjúkaffi og kvöldmat. Okkur leiðist aldrei.“

Byrjaði snemma blaðasölu

Magni man eftir sér fimm, sex ára á Grímsstaðaholtinu, þegar afinn og amman bjuggu á Þrastargötu. Stríðið var byrjað, braggar risu og fyrstu flugvélarnar flugu yfir. „Þá urðum við krakkarnir svo hræddir að við hentum okkur niður á jörðina,“ rifjar hann upp – líka flutninga, fyrst á Norðurstíg 5 og svo í litla íbúð við Laugaveg 70 b.

Hann byrjaði að selja blöð tíu ára og sinnti því í fimm ár. „Ég seldi mikið og vel. Var alltaf kominn niður á torg klukkan hálf sjö til kortér í, menn voru að stökkva í strætó og gerðust áskrifendur að blöðum hjá mér en þurftu ekki að borga fyrr en næsta föstudag, þá fékk ég smá bónus. Mönnum sem mæta í vinnu á réttum tíma er treystandi.“

Úr skólanum í skurð

Gegnum afa sinn kveðst Magni hafa fengið starf hjá Símanum við Sölvhólsgötu. „Þar var líka Samvinnuskólinn þá og Jónas frá Hriflu skólastjóri. Ég þótti of ungur til að hefja nám, var sagt að mæta næsta ár en bað um að fá að taka inntökupróf svo ég vissi hvernig ég ætti að undirbúa mig. Prófið gekk svo vel að ég var tekinn inn. Var þar einn vetur og Jónas vildi gera mig að kaupfélagsstjóra en ég sagðist ekki aðhyllast samvinnustefnuna og fór að vinna í skurðum hjá símanum, rétt fyrir utan skólann. Kennararnir hafa örugglega hugsað: mikið er hann djúpt sokkinn.“

Magni var ekki lengi í skurðinum því Landsbankinn beið hans, þar vann hann í sjö ár og var í hópnum sem byrjaði á Laugavegi 77. „Í maí 1961 fórum við félagar úr bankanum á ball í Lídó. Þar sá ég afar fallega stúlku við næsta borð og bauð henni upp, hálfhræddur – en við höfum dansað saman síðan, í 59 ár! Giftum okkur 11. júlí 1964. Brúðkaup á Eyrarbakka heldur greinilega vel!“

Alin upp í frægri búð

Steinunn er frá Eyrarbakka og kveðst aðspurð að hluta til alin upp í búðinni hjá föður sínum, Guðlaugi Pálssyni, sem varð næstum 98 ára og stóð við búðarborðið til æviloka, 1993, hafði þá rekið verslunina í 76 ár. „Þegar ég var sautján ára langaði mig svo til Reykjavíkur og pabbi sleppti mér. Ég fór strax að vinna í Parísarbúðinni í Austurstræti 8 og átti þar mjög góðan tíma,“ segir hún. „Svo fór ég í húsmæðraskólann við Sólvallagötu og hef aldrei séð eftir því. Magni kom oft heim með útlendinga í mat en mér fannst það ekkert mál.“

Tryggðin hélst

Eftir að hafa rekið Frímerkjamiðstöðina við Skólavörðustíg ásamt tveimur vinum sínum í 15 ár opnaði Magni litla verslun í eigin nafni við Laugaveg árið 1979. „Við Steinunn og börnin rákum þá búð til 2005 og ég sakna hennar fyrir jólin, þá kom sama fólkið ár eftir ár að kaupa spil handa barnabörnunum. Síðan komu barnabörnin og keyptu handa sínum börnum, þannig að tryggðin hélst,“ segir Magni. „Sumir komu inn og sögðu: „Ég ætla bara að fá einn brandara“ svo ég varð alltaf að hafa einhverja nýja á takteinum!“

Hjónun réku litla verslun á Laugavegi frá 1979 til 2005.