Ísraelski herinn réðst inn á Sínaískaga í Egyptalandi á þessum degi árið 1956. Innrásin markaði upphaf Súesdeilunnar. Átökin áttu eftir að standa yfir í níu daga og náðu Ísraelar að vinna Sínaískagann af Egyptum. Þeir héldu skaganum fram í mars. Alls létust 172 ísraelskir hermenn, allt að 3.000 egypskir hermenn, tíu franskir, sextán breskir og um 1.000 almennir borgarar í átökunum.

Íslensku dagblöðin greindu frá innrásinni á forsíðu. „Ástandið í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs hefur þótt svo alvarlegt, að öllum bandarískum þegnum sem þar dveljast var á sunnudaginn ráðlagt að halda heim nema þeir hefðu knýjandi ástæður til að vera um kyrrt,“ sagði meðal annars í frétt Þjóðviljans. Að auki sagði að mikil hætta væri á því að árásin myndi marka upphaf nýrrar styrjaldar í Palestínu.

„Til þessara aðgerða hefði verið gripið vegna síendurtekinna árása Egypta á samgönguleiðir í Ísrael, í nánd við landamæri ríkjanna. – Seinustu fréttir frá Ísrael herma svo, að ísralskar og egypzkar hersveitir hafi lent í bardögum skammt innan egypzku landamæranna, en heimildarmönnum Reuters ber ekki saman um hversu langt innan landamæranna,“ sagði svo í Morgunblaðinu.

Í tímanum sagði að framsóknin væri afar hröð og ekki hefði frést af neinni mótspyrnu. „Ísraelsmenn segjast gera þetta í hefndarskyni fyrir árásir Egypta. Árás þessi sé nauðsynleg til að eyðileggja bækistöðvar egypzkra víkingasveita á Sinaí-skaganum.“