Skagfirðingabók er rit Sögufélags Skagfirðinga. Til að hafa vaðið fyrir neðan okkur köllum við hana þessu nafni en ekki árbók, þó síðustu ár hafi hún komið út árlega,“ segir Sölvi Sveinsson, fyrrverandi skólameistari, þegar hann er spurður út í frétt á Feyki um fertugustu Skagfirðingabókina. Þar er mynd af honum í pontu að lesa eigin texta úr aðalgrein ritsins. „Þetta er sjálfboðastarf hjá okkur sem stöndum að útgáfunni. Við höfum gaman af þessu. Teljum að þetta sé metnaðarfyllsta héraðsrit landsins, enda er Skagafjörður nafli alheimsins!“

Inntur nánar eftir upprunanum kveðst Sölvi hafa alist upp á Króknum en eiga ættir um allan fjörð. „Ég fór samt eiginlega að heiman fimmtán ára, þá að vinna í brúargerð austur á fjörðum á sumrin og í Menntaskólann á Akureyri á haustin. Svo tók Háskólinn við.“

Fyrsta Skagfirðingabókin kom út 1966, að sögn Sölva. „Stofnendur hennar voru Hannes Pétursson skáld, Sigurður Björnsson sálfræðingur og Kristmundur Bjarnason, fræðimaður á Sjávarborg í Skagafirði. Þeir ritstýrðu henni fyrstu árin. Síðan tókum við Hjalti Pálsson, Sigurjón Páll Ísaksson og Gísli Magnússon við henni, en sá síðastnefndi er látinn. Ég hef verið viðloðandi 33 Skagfirðingabækur.“

Sölva Helgasonar er minnst í nýja ritinu, að sögn nafna hans, því 200 ár eru frá fæðingu hans. „Listamaðurinn Albert Thorvaldsen sem fæddist fyrir 250 árum komst líka á blað. Faðir hans var Skagfirðingur en barst til Kaupmannahafnar og hitti þar danska stúlku sem varð móðir Thorvaldsens.“

En greinin sem Sölvi kveðst hafa lesið úr í útgáfuhófinu, fjallar um hjónin Guðjón Ingimundarson og Ingibjörgu Kristjánsdóttur, sem kölluð er Bogga. „Í Skagfirðingabók er hefð fyrir því að ævi einhverrar persónu sem hefur sett mark sitt á héraðið séu gerð skil með ýmsu móti. Í nýútkomna ritinu eru persónurnar tvær, heiðurshjónin Guðjón og Bogga. Guðjón er öflugur karl af Ströndum sem gerðist íþróttakennari á Króknum. Hann sat í bæjarstjórn í 24 ár og var allt í öllu í ungmenna-og íþróttastarfi héraðsins. Sat líka í stjórnum ÍSÍ og UMFÍ. Bogga er Skagfirðingur. Hún var að vinna í Samlaginu á Króknum og Guðjón gekk þar fram hjá á hverjum degi. Þau urðu hjón og eignuðust sjö börn.“