Einar Jónsson var fyrsti myndhöggvari Íslands. Listasafn hans á Skólavörðuholti hefur verið nánast óumbreytanlegt frá því það var opnað 1923, enda setti Einar sjálfur skýrar reglur svo um þegar hann gaf þjóðinni verk sín. Þó þau séu öll enn á sínum stað þá er varpað á þau nýju ljósi með sýningunni Afsakið ónæðið – Tímabundin truflun sem tíu listamenn hafa unnið þar að og verður opnuð klukkan 17 í dag.

Einn af sýningarstjórunum er Ólöf Bjarnadóttir. Hún er fyrst spurð hvort þarna sé verið að fremja einhver helgispjöll. Hún brosir. „Það er góð spurning, kannski gæti einhverjum þótt það. Einkum í ljósi þess að Einar setti sjálfur ströng skilyrði um hvernig mætti ganga um listasafnið hans. Eitt af þeim var að aðrir listamenn ættu ekki að sýna í safninu. En þetta er ekki í fyrsta skipti sem það er gert. Stutt er frá því að tveir listamenn voru þar með vídeóverk sín. En líklega hafa aldrei svona margir sýnt þar á sama tíma.“

Þegar sýningin Afsakið ónæðið verður opnuð munu gestir ganga inn í safnið Freyjugötumegin, gegnum garðinn sem styttur Einars prýða. Nú er búið að koma þar fyrir aðskotahlut í formi flettiskiltis. Fleiri slík verða á vegi gesta þegar komið er inn.

Mari Bø gagnrýnir birtingarmynd kvenna í verkum Einars Jónssonar með því að tefla fram öðru sjónarhorni. ?Hér hefur hún stillt upp vídeóverki af sér þar sem hún hnyklar bakvöðvana. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Listafólkið hefur fengið nokkuð frjálsar hendur með að setja verkin sín upp inni í safninu eða garðinum, eitt er uppi í íbúðinni sem hann Einar bjó í með konu sinni, Önnu Marie Mathilde. Þetta eru verk af mörgu tagi. Það verður gjörningur á opnuninni, svo eru hér skúlptúrar, vídeólistaverk, málverk.“

Ólöf segir listafólkið koma úr hinum ýmsu áttum og tefla fram ólíkum sjónarhornum á listamanninn Einar Jónsson, höggmyndir hans og safnið sjálft. „Það vinnur líka út frá erfðaskránni hans Einars,“ segir hún og lýsir því nánar: „Ein af reglunum sem í henni koma fram er að ekki megi færa neitt af verkum hans til, þau eigi að standa alltaf á sama stað og flest þeirra hafa gert það alla tíð. En eitt af nýju listaverkunum gekk út á að færa eitt þeirra. Listamaðurinn fór í ákveðið ferli við að fá leyfi til þess gjörnings, en það leyfi fékk hann ekki. Listaverk hans er sýning á skjölunum frá þessu ferli, ásamt erfðaskránni, sem eru til aflestrar í glerkassa.“

Sýningin er samstarfsverkefni Listasafns Einars Jónssonar, Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands.