Mamma sá auglýsingu frá þessum sjóði á netinu og benti mér á að sækja um styrk. Ég lét vaða og það kom mér á óvart að verða í hópi þeirra heppnu,“ segir Lárus Sindri Lárusson, einn fjögurra styrkþega úr Ingjaldssjóði við Háskóla Íslands. Hann er í MA-námi við Copenhagen Business School. „Styrkurinn breytir stöðunni hjá fátækum námsmanni eins og mér. Ég bjóst við að þurfa að fá mér vinnu með náminu nú á vorönn, vissi samt ekki hvar ég ætti að koma henni fyrir í dagskránni. Nú get ég byrjað önnina án þess að hafa verulegar áhyggjur.“

Hinir styrkhafarnir eru í tónlistarnámi. Lárus kveðst reyndar hafa stundað nám í píanóleik þar til eftir stúdentspróf. „Ég fór að Hólum og tók BA-próf í reiðmennsku og reiðkennslu, sem ég hefði ekki viljað fara á mis við. En þar var ekki um píanókennslu að ræða. Ég stefni á að taka upp þráðinn aftur.“

Nú á viðskiptafræðin hug Lárusar allan. Hann kveðst sjá það best í framhaldsnáminu hversu möguleikarnir innan hennar eru miklir. „Það er skemmtilegt og þroskandi að skipta um umhverfi og svo er líka gott að upplifa hvað grunnurinn úr HÍ nýtist vel, þannig að ég er vel settur.“