Í dag eru liðin tíu ár síðan Stúdentakjallarinn opnaði dyr sínar undir Háskólatorgi við Háskóla Íslands. Í tilefni þess mun Moses Hightower troða upp í kjallaranum í kvöld til að fagna tímamótunum með gestum.

Upprunalegi Stúdentakjallarinn var opnaður árið 1975 og var rekinn í rúm 30 ár áður en honum var lokað árið 2007 þegar Háskólatorg var tekið í notkun árið 2007. Félagsstofnun Stúdenta stóð síðan að því að endurvekja Stúdentakjallarann sem hefur síðan verið mikilvægur hluti af félagslífi Háskólans, sem og fastagesta utan hans þar sem Vesturbærinn er einstaklega pöbbasvelt hverfi.

„Við gerum ráð fyrir því að hlutfall gesta sem stunda háskólanám nemi um 80 prósentum, en við fáum einnig mikla umferð frá þeim sem vinna í kring um Vesturbæinn og Vatnsmýrina,“ segir Auðunn Orri Sigurvinsson, rekstrarstjóri Stúdentakjallarans. „Við tölum oft um hvað við erum heppin með kúnnahóp og það verður augljóst þegar litið er til umgengni og orkunnar almennt inni á Stúdentakjallaranum. Eins og alls staðar annars staðar er samkeppni, en við erum einfaldlega með hagstæðustu verðin á þessu svæði.“

Alltaf pláss

Til viðbótar við að bjóða upp á mat og drykk stendur Stúdentakjallarinn fyrir ýmsum viðburðum sem hafa margir hverjir orðið að rótgrónum hefðum í gegnum árin. Þar má sem dæmi nefna tónleika, umræður, uppistand auk þess sem kvikmyndum og stórum íþróttaviðburðum er oft varpað á risaskjá.

„Við reynum að halda eins marga og fjölbreytta viðburði og hægt er og nemendafélögin og Stúdentaráð Háskóla Íslands eru til dæmis mjög dugleg í að halda ókeypis viðburði fyrir félagsmenn og nemendur,“ segir Auðunn Orri sem bætir við að kjallarinn hafi alltaf verið frábær stökkpallur fyrir efnilegt tónlistarfólk og skemmtikrafta. „Svo erum við með happy hour alla daga vikunnar, en síðasti föstudagur hvers mánaðar er haldinn hátíðlegur sem Skítblankur föstudagur.“

Þegar horft er fram á veginn segir Auðunn Orri að unnið sé að því að bæta aðstöðuna enn frekar fyrir viðburðahald.

„Við höfum verið að vinna í því að bæta hljóðbúnað Stúdentakjallarans til þess að geta haldið fleiri tónleika, við stefnum á að vera komin með allan búnað og græjur til þess að tónlistarfólk þurfi ekki að troða trommusettum í skott til þess að spila hjá okkur,“ segir hann. „Stúdentakjallarinn hefur alltaf verið öruggur staður þar sem allir geta komið saman og fengið sér mat og drykk. Það skiptir ekki máli hvort að þú ert að læra fyrir lokapróf, fagna ritgerðarskilum eða taka því rólega eftir langan vinnudag, það er alltaf pláss fyrir þig.“ n