Við Beethoven eigum báðir merkisafmæli, ég 80 ára og hann 250!“ segir Egill Rúnar Friðleifsson tónlistarkennari glaðlega. Hann segir áratuginn milli sjötugs og áttræðs hafa verið sér gjöfulan, enda standi heilsan með honum. Hann vill miðla góðu ráði til þeirra sem horfa fram á starfslok en eru í fullu fjöri.

„Þegar ég hætti að vinna settist ég niður og hugsaði: Hvað hefur mig alltaf langað að gera en aldrei komið í verk eða haft tök á? – og ég skrifaði lista. Síðan eru liðin tíu ár. Eitt það fyrsta og besta sem ég gerði var að ganga Jakobsveginn til Santiago de Compostela, ekki bara einu sinni heldur tvisvar með tveggja ára millibili og um ólíkar leiðir. Það var stórkostlegt ævintýri. Stórt X við það á listanum. Ég hafði aldrei farið í Metropolitanóperuna í New York og aldrei séð Berlínarsinfóníuna á heimavelli, hvoru tveggja er afgreitt og margt fleira.“

Ekta Gaflari

Egill er Hafnfirðingur í húð og hár og kveðst nú búa í Skipalóni með konunni, Sigríði Hildi Björnsdóttur. Enginn garður, ekkert viðhald, engar áhyggjur. „Ég er búinn að eiga heima á sjö stöðum í Suðurbænum, aldrei flutt vestur fyrir Læk og er svo heppinn að kirkjugarðurinn er í rétta bæjarhlutanum!“ segir hann léttur en er þó langt í frá að leggja upp laupana. Kveðst byrja daginn klukkan sex á morgnana. „Ég hangi á snerlinum í Suðurbæjarlaug hálf sjö, fer í útiklefa, kalda pottinn, heita og kalda sturtu og er svo hress allan daginn!“ Hann kveðst elska tónlist og alltaf spila á hljóðfæri, auk þess að fara oft á tónleika – nema núna. „Ég hef sótt tónleika Sinfóníunnar reglulega frá átján ára aldri.“

Öll tjöldin voru eins

Fyrsta minning Egils er frá Þingvöllum 17. júní 1944, þegar hann var þriggja og hálfs árs. Eftir að hafa sofið í tjaldi með foreldrum sínum fór hann einn á stjá en rataði ekki til baka. Öll tjöldin voru eins, hvít. „Ég man enn þessa ónotatilfinningu. En þar sem ég var þarna vælandi stóð allt í einu hjá mér unglingsstúlka, sem með fallegri framkomu vann traust mitt á stundinni og hönd í hönd hættum við ekki fyrr en við fundum mömmu og pabba. Þá hljóp ég beint í fangið á mömmu en stúlkan hvarf í fjöldann. Ef hún er á lífi og rekst á þessar línur þá bið ég hana að hafa samband, mig langar svo að þakka henni, þó að seint sé.“

Ævistarf Egils var að kenna börnum tónlist og hann stjórnaði barnakór í næstum hálfa öld. Stofnaði kór Öldutúnsskóla í Hafnarfirði 22. nóvember 1965, sem er nú elsti grunnskólakór landsins. „Ég vissi það ekki þá en 22. nóvember er einmitt dagur heilagrar Sesselju, verndardýrlings tónlistar,“ segir Egill og bætir því við að fyrsta lagið sem kórinn æfði hafi verið Frá ljósanna hásal og það lag hafi fylgt kórnum.

Í strangri gæslu

Ekki kveðst hann geta gert sér mikinn dagamun í dag, enda í áhættuhópi vegna COVID og í strangri gæslu af fósturdóttur sinni sem er hjúkrunarkona og tengdadóttur sem er læknir, báðar vinna á COVID-deildum. Hann á þó von á að börnin, sem eru sex talsins, reki inn nefið, hvert í sínu lagi.