Fyrsta markmið fæðingarorlofslaganna sem sett voru árið 2000 var að tryggja barni umönnun beggja foreldra á fyrstu stigum lífsins og samvistir við þá báða. Þetta var tímamótalöggjöf og erindi okkar Ásdísar A. Arnalds og Ingólfs V. Gíslasonar í Þjóðarspeglinum á morgun snýst um niðurstöður rannsókna á því hvort þeim markmiðum hafi verið náð. Þær rannsóknir hafa staðið frá upphafi,“ segir Guðný Björk Eydal sem er prófessor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.

Lögin vöktu alþjóðaathygli

Guðný segir íslensku lögin hafa vakið athygli erlendis. „Við vorum síðust Norðurlandaþjóða til að setja lög um fæðingarorlof fyrir feður en þegar við gerðum það voru þau einstök. Mæður fengu þrjá mánuði, feður þrjá mánuði og svo voru þrír mánuðir sameiginlegir.“

„Íslenska leiðin“, eins og hún er kölluð, þar sem feðrum er boðinn sjálfstæður réttur til fæðingarorlofs og góðar greiðslur, segir Guðný hafa verið öðrum þjóðum fyrirmynd. „Það er oft vísað til hennar á alþjóðavettvangi því sýnt þótti að hún væri leiðin til að feður fengju lögmætt rými til að taka fæðingarorlof.“

Páll Pétursson félagsmálaráðherra bar fram frumvarpið. „Það var stórt skref í jafnréttismálum og auðvitað í barnaréttarmálum,“ segir Guðný. „Strax þegar lögin tóku gildi varð alger bylting í því hvernig foreldrar skiptu með sér umönnun barna því íslenskir feður nýttu umsvifalaust allan sinn rétt til fæðingarorlofs. Gengu þar á undan kynbræðrum sínum í öðrum löndum með góðu fordæmi. Þar með minnkaði bilið milli atvinnuþátttöku foreldranna og bilið milli fjölda vinnustunda. Eftir þetta hefur hlutdeild feðra í umönnun barna sinna haldið áfram að aukast.“

Feður þurfa lagaskjól

Guðný segir bæði íslenskar og erlendar rannsóknir og sýna að feður taki nánast aldrei sameiginlegan fæðingarorlofsrétt sem boðið er upp á, hann fari alltaf til mæðranna. „Það er kannski tekjuspursmál en ekki síður spurning um viðhorf, bæði á vinnustöðum og hjá foreldrunum sjálfum og hefðir sem skapast hafa um hvernig mæður og feður eigi að hegða sér. Allt spilar saman þannig að ef ekki eru búnar til girðingar og sérstakt rými fyrir feður til sjálfstæðs réttar fæðingarorlofs þá fellur hann yfirleitt til mæðra. Þeir þurfa lagaskjól til að geta nýtt sér réttinn. En rannsóknir sýna að börnum er fyrir bestu að mynda tengsl við báða foreldra frá unga aldri og það má lýsa þessari lagasetningu sem hljóðlátri byltingu fyrir börn.“

Ekki bara til aðstoðar

Guðný getur þess að talið sé jákvætt að feður séu einir ákveðinn tíma með barnið heima, til að ná góðum tengslum og geta verið í umönnunarhlutverkinu á eigin forsendum, en ekki bara til aðstoðar mömmunni. Hún bendir á að eins og áður hafi komið fram taki þeir sína mánuði en segir að oftast séu það þó mömmurnar sem brúi bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla eða dagmömmu og það hafi augljóslega meiri áhrif á stöðu þeirra á vinnumarkaði en feðranna.