Gasverksmiðjan Ísaga við Rauðarárstíg brann þennan dag árið 1963. Skömmu eftir að eldurinn braust út urðu miklar sprengingar í fullum gasgeymum í byggingunni. Húsið varð á svipstundu að einu eldhafi og fylgdi mikill loftþrýstingur sprengingunum svo slökkviliðsmenn voru í bráðri hættu við störf sín og féllu iðulega um koll. Töluverðar skemmdir urðu einnig á húsum í næsta nágrenni og flúði fólk íbúðir sínar unnvörpum.

Tveir menn voru inni í byggingunni þegar eldurinn kom upp og lokuðust þeir inni. Þeim tókst að leita skjóls í súrefnisbyggingu sem var það rammlega varin að þeir héldu lífi og gátu forðað sér út úr húsinu þegar eldurinn tók að réna.

Við rannsókn eldsupptaka kom í ljós að einn starfsmaðurinn hafði ætlað að skrúfa fyrir gashylki með lykli sem hann hafði skömmu áður hitað yfir eldi.

Heimild/Öldin okkar