Bæði Hallgrímskirkja og Fríkirkjan í Reykjavík fagna tvö hundruð ára afmæli tónskáldsins César Franck á næstu dögum.
Það verður mikil veisla fyrir unnendur klassískrar tónlistar á Íslandi í byrjun desember þegar tvö hundruð ár verða liðin frá fæðingu fransk-belgíska tónskáldsins César Franck. Upphaflega fæddur í Belgíu vann Franck sér inn orðspor sem frábær píanó- og síðar orgelleikari. Hann bjó og starfaði í París nánast alla ævi en tók síðar franskan ríkisborgararétt upp úr miðjum aldri, ekki síst af skyldurækni vegna stöðu sinnar sem prófessor við konservatoríið í París.
„Hann er einn mesti áhrifavaldur orgeltónlistarsögunnar á rómantíska tímabilinu,“ segir Björn Steinar Sólbergsson, organisti í Hallgrímskirkju. „Á rómantíska tímabilinu var orgelið sem hljóðfæri staðnað. Það reis hvað hæst á barokktímanum en síðan hafði lítið gerst í þróun.“
Þegar Franck kynntist orgelsmiðnum Aristide Cavaillé-Coll aðlöguðu þeir orgelið í sameiningu hugmyndafræði rómantíska tímabilsins þar sem þeir hönnuðu nýjar raddir í orgelið sem hentuðu betur fyrir langar, syngjandi línur. Þeir gerðu organistum einnig mögulegt að gera breytingar frá veiku og yfir í sterkt.
„Í framhaldi af þessu verður algjör sprenging í orgeltónlist, sérstaklega í Frakklandi,“ segir Björn Steinar.
Tímamótaorgelmaraþon
Næsta laugardag verða í Hallgrímskirkju í fyrsta sinn á Íslandi öll orgelverk Franck flutt í heild sinni af tólf organistum á sannkölluðu orgelmaraþoni. Franck er þó ekki eina afmælisbarnið sem fagnað verður heldur eru þrjátíu ár liðin frá vígslu Klais-orgelsins í Hallgrímskirkju.
„Þetta er auðvitað algjört draumahljóðfæri – sennilega besta vinnutæki sem nokkur organisti getur hugsað sér,“ svarar Björn Steinar spurður út í þetta merkilega hljóðfæri. „Það er skemmtilegt að segja frá því að þegar orgelið var hannað hér í kirkjunni af Herði Áskelssyni, forvera mínum, þá var tekið mikið tillit til þess að það myndi henta franskri orgeltónlist. Franck hefur stundum verið kallaður höfundur sinfóníska tímabilsins í orgeltónlistarsögunni þar sem í rauninni var litið á orgelið sem hljómsveit.“

Vegleg brúðargjöf
Eitt af þekktustu verkum Franck er fiðlusónata sem flutt verður í Fríkirkjunni í næstu viku. Þar munu Sif Margrét Tulinius fiðluleikari og Richard Simm píanóleikari flytja efnisskrá þar sem þessi gullfallega sónata verður flutt ásamt tveimur verkum eftir Ludwig van Beethoven, Rómansa og hin þekkta Kreutzer-sónata,“ útskýrir Sif Margrét.
„Það þekkja allir fiðluleikarar þessa sónötu,“ segir Sif Margrét sem hefur sjálf persónulega tengingu við tónlist Franck.
„Þegar ég var þrettán ára gömul bjó ég um tíma í Frakklandi ásamt foreldrum mínum þar sem ég sótti fiðlutíma. Í lok þess tímabils gaf fiðlukennarinn minn mér kveðjugjöf áður en ég fór aftur til Íslands– nótur af einu af stuttu verki Franck, Andantino Quietoso.“
Verkið hefur síðan þá verið í miklu uppáhaldi hjá Sif sem tók það síðar upp og gaf út á geisladisk. Sónatan var skrifuð sem brúðargjöf til vinar Franck, fiðluleikarans Eugene Ysaye, sem hefur síðan þá orðið þekkt meðal allra fiðluleikara.
Innskot Beethoven í efnisskrána er ekki að ástæðulausu.
„Það má því segja að sónatan verði umvafin þessum verkum Beethoven en Franck var sjálfur mikill aðdáandi tónlistar hans og vilja margir meina að í sinfóníunni sem hann skrifaði á síðustu árum ævi sinnar gæti mikilla áhrifa frá Beethoven,“ útskýrir Sif Margrét. „Við hlökkum mjög til að flytja þessi verk í Fríkirkjunni sem ég hef verið að uppgötva sem frábæran tónleikastað.“
Tónleikarnir í Hallgrímskirkju fara fram milli klukkan 12 og 15 næsta laugardag og tónleikarnir í Fríkirkjunni næsta þriðjudagskvöld klukkan 19.30.