Bæði Hall­gríms­kirkja og Frí­kirkjan í Reykja­vík fagna tvö hundruð ára af­mæli tón­skáldsins César Franck á næstu dögum.

Það verður mikil veisla fyrir unn­endur klassískrar tón­listar á Ís­landi í byrjun desember þegar tvö hundruð ár verða liðin frá fæðingu fransk-belgíska tón­skáldsins César Franck. Upp­haf­lega fæddur í Belgíu vann Franck sér inn orð­spor sem frá­bær píanó- og síðar orgel­leikari. Hann bjó og starfaði í París nánast alla ævi en tók síðar franskan ríkis­borgara­rétt upp úr miðjum aldri, ekki síst af skyldu­rækni vegna stöðu sinnar sem prófessor við kon­servatoríið í París.

„Hann er einn mesti á­hrifa­valdur orgel­tón­listar­sögunnar á rómantíska tíma­bilinu,“ segir Björn Steinar Sól­bergs­son, organ­isti í Hall­gríms­kirkju. „Á rómantíska tíma­bilinu var orgelið sem hljóð­færi staðnað. Það reis hvað hæst á barokk­tímanum en síðan hafði lítið gerst í þróun.“

Þegar Franck kynntist orgel­smiðnum Aristi­de Ca­va­illé-Coll að­löguðu þeir orgelið í sam­einingu hug­mynda­fræði rómantíska tíma­bilsins þar sem þeir hönnuðu nýjar raddir í orgelið sem hentuðu betur fyrir langar, syngjandi línur. Þeir gerðu organ­istum einnig mögu­legt að gera breytingar frá veiku og yfir í sterkt.

„Í fram­haldi af þessu verður al­gjör sprenging í orgel­tón­list, sér­stak­lega í Frakk­landi,“ segir Björn Steinar.

Tíma­móta­orgelmara­þon

Næsta laugar­dag verða í Hall­gríms­kirkju í fyrsta sinn á Ís­landi öll orgel­verk Franck flutt í heild sinni af tólf organ­istum á sann­kölluðu orgelmara­þoni. Franck er þó ekki eina af­mælis­barnið sem fagnað verður heldur eru þrjá­tíu ár liðin frá vígslu Klais-orgelsins í Hall­gríms­kirkju.

„Þetta er auð­vitað al­gjört drauma­hljóð­færi – senni­lega besta vinnu­tæki sem nokkur organ­isti getur hugsað sér,“ svarar Björn Steinar spurður út í þetta merki­lega hljóð­færi. „Það er skemmti­legt að segja frá því að þegar orgelið var hannað hér í kirkjunni af Herði Ás­kels­syni, for­vera mínum, þá var tekið mikið til­lit til þess að það myndi henta franskri orgel­tón­list. Franck hefur stundum verið kallaður höfundur sin­fóníska tíma­bilsins í orgel­tón­listar­sögunni þar sem í rauninni var litið á orgelið sem hljóm­sveit.“

Björn Steinar segir Klais orgelið draumavinnutæki organistans.
Mynd/Hallgrímskirkja

Veg­leg brúðar­gjöf

Eitt af þekktustu verkum Franck er fiðlu­­sónata sem flutt verður í Frí­kirkjunni í næstu viku. Þar munu Sif Margrét Tulinius fiðlu­leikari og Richard Simm píanó­leikari flytja efnis­skrá þar sem þessi gull­fal­lega sónata verður flutt á­samt tveimur verkum eftir Ludwig van Beet­hoven, Rómansa og hin þekkta Kreutzer-sónata,“ út­skýrir Sif Margrét.

„Það þekkja allir fiðlu­leikarar þessa sónötu,“ segir Sif Margrét sem hefur sjálf per­sónu­lega tengingu við tón­list Franck.

„Þegar ég var þrettán ára gömul bjó ég um tíma í Frakk­landi á­samt for­eldrum mínum þar sem ég sótti fiðlu­tíma. Í lok þess tíma­bils gaf fiðlu­kennarinn minn mér kveðju­gjöf áður en ég fór aftur til Ís­lands– nótur af einu af stuttu verki Franck, Andantino Qu­iet­os­o.“

Verkið hefur síðan þá verið í miklu upp­á­haldi hjá Sif sem tók það síðar upp og gaf út á geisla­disk. Sónatan var skrifuð sem brúðar­gjöf til vinar Franck, fiðlu­leikarans Eu­gene Ysa­ye, sem hefur síðan þá orðið þekkt meðal allra fiðlu­leikara.

Inn­skot Beet­hoven í efnis­skrána er ekki að á­stæðu­lausu.

„Það má því segja að sónatan verði um­vafin þessum verkum Beet­hoven en Franck var sjálfur mikill að­dáandi tón­listar hans og vilja margir meina að í sin­fóníunni sem hann skrifaði á síðustu árum ævi sinnar gæti mikilla á­hrifa frá Beet­hoven,“ út­skýrir Sif Margrét. „Við hlökkum mjög til að flytja þessi verk í Frí­kirkjunni sem ég hef verið að upp­götva sem frá­bæran tón­leika­stað.“

Tón­leikarnir í Hall­gríms­kirkju fara fram milli klukkan 12 og 15 næsta laugar­dag og tón­leikarnir í Frí­kirkjunni næsta þriðju­dags­kvöld klukkan 19.30.