Afmælisvefur hefur verið opnaður í tilefni þess að áttatíu ár eru frá því Ísland tók utanríkismálin í eigin hendur. Það gerðist 10. apríl 1940, daginn eftir að Þjóðverjar hernámu Danmörku. Þurfti virkilega ekki nema eitt pennastrik eða hittist bara svona á? Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, verður fyrir svörum.

„Samkvæmt Sambandslagasamningnum 1918 fóru Danir með utanríkismál fyrir Íslendinga en þegar Danmörk var hernumin brást íslenska ríkisstjórnin skjótt við, enda sá hún fram á að dönsk stjórnvöld gætu ekki lengur framfylgt samningnum. Þetta voru menn búnir að ræða óformlega, ef til kæmi. Nokkrir Íslendingar höfðu um skeið starfað í dönsku utanríkisþjónustunni og fengið þjálfun þar. Sveinn Björnsson var á þeim tíma sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn og stuttu eftir hernámið kom hann til Íslands. Það var ekki einfalt ferðalag. Hann varð síðar ríkisstjóri og svo forseti.“

Nú verður því fagnað í sumar að hundrað ár verða frá opnun íslensks sendiráðs í Danmörku. Voru íslensk sendiráð víðar í Evrópu þegar heimsstyrjöldin skall á?

„Nei, Danir fóru með utanríkismál Íslands og skjaldarmerki konungsríkisins Íslands var víðast hvar á veggjum danskra sendiráða og ræðisskrifstofa, svo og fánarnir, sá íslenski og danski. Sendiráðið í Kaupmannahöfn hafði nokkra sérstöðu.“

Hefur gildi sendiráða minnkað með tilkomu tölvutækninnar?

„Nei, í rauninni ekki. Sendiskrifstofurnar hafa bæði táknrænan og hagnýtan tilgang. Þær eru holdtekning fullveldis landsins og hagnýti tilgangurinn er hagsmunagæsla og upplýsingamiðlun. Auðvitað hafa aðstæður breyst, samgöngur batnað og bylting orðið í fjarskiptum en það breytir ekki mikilvægi þess að hafa fólk á vettvangi. Allt byggist á samskiptum við fólk, hvort sem það er stjórnsýslan, viðskipti eða menningarlíf og síminn og tölvan duga ekki alfarið. Það er virðisauki að hafa fólk á staðnum.“

Er fjöldi íslenskra sendiráða alltaf sá sami?

„Einhverjum skrifstofum var lokað í kjölfar hrunsins, þar sem verkefni voru sértæk og runnu sitt skeið. Í dag eru íslenskar sendiskrifstofur 26 samtals. Segja má að grunnurinn að því neti hafi orðið til rétt eftir stofnun lýðveldisins og ef horft er á hagtölur þá endurspeglar þetta nokkuð vel okkar helstu viðskiptalönd. Svo eru fastanefndir gagnvart alþjóðastofnunum. Þar er almennari hagsmunagæsla.“

Sjálfur kveðst Sturla hafa starfað í utanríkisþjónustunni í þrjátíu og þrjú ár. „Ég hef verið í þremur mismunandi störfum í Brussel og búið þar í átta ár, ég var í New York í þrjú ár, sendiherra á Indlandi í tæpt ár, í Danmörku í tæp fimm ár og Kanada í þrjú ár og þess á milli í ýmsum störfum í ráðuneytinu. Nú er ég búinn að vera heima á Íslandi í þrjú ár.“

Er glamúr tengdur utanríkisþjónustunni?

„Ég vil ekki orða það þannig. Kannski hefur það verið áður fyrr, þegar samskipti við umheiminn voru takmarkaðri. En ég held að flestir í utanríkisþjónustunni hafi gaman af vinnunni, þar eru mjög oft áhugaverð viðfangsefni og áhugavert umhverfi þó hin daglegu störf geti, eins og gengur, stundum orðið hvunndagsleg. Við glímum stöðugt við ranghugmyndir fólks um störf í utanríkisþjónustunni, það er að vissu leyti okkur sjálfum að kenna því við erum vön að vinna þau í kyrrþey. Upp á síðkastið hefur borgaraþjónustan þó fengið verðskuldaða athygli, því með hennar aðstoð streymdu Íslendingar heim til að forða sér frá COVID. En það er svo margt annað sem er verið að vinna dagsdaglega. Það gleymist oft að neysluvarningurinn sem fólk notar að jafnaði, föt, bílar, fjarskiptatækni, byggist á samningum sem íslenska utanríkisþjónustan hefur tekið þátt í að gera og reka. Svo má tala um víðtækari hluti eins og ferðafrelsi, mannréttindavernd Íslendinga erlendis, kosti til náms, þetta eru allt gæði sem okkur þykja sjálfsögð en byggjast á stöðugri vinnu okkar fólks bæði heima og erlendis.“

Sturla telur að í öllum samanburði sé utanríkisþjónusta Íslands fámenn en fái samt miklu áorkað. „Þá komum við aftur að þeim kyrrþey sem ég nefndi áður. Nýr afmælisvefur er undantekning á því. Þar er vakin athygli á störfum utanríkisþjónustunnar sem er yfirleitt ekki mikið í fréttum.“

Hér afhendir Sigríður Snævarr sendiherra Nelson Mandela, forseta Suður-Afríku, trúnaðarbréf sitt árið 1996.