Einni eftirminnilegustu Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva lauk á þessum degi 1988 með sigri Céline Dion fyrir Sviss með laginu Ne partez pas sans moi. Eins og þá var vaninn var lagatitillinn þýddur á íslensku og hét lagið Ekki fara burt án mín.

Aðeins munaði einu atkvæði að Bretar tækju sigurinn en framlag Íslands, Sókrates, sem Stefán Hilmarsson og Sverrir Stormsker fluttu, endaði að sjálfsögðu í 16. sæti – sem þá var sæti okkar Íslendinga.

Elín Albertsdóttir blaðakona var fyrir hönd DV á keppninni og segir að sigur poppdívunnar hafi lítið komið sér á óvart. Það sem hafi komið mest á óvart hafi verið að Celine hafi ekki talað stakt orð í ensku. Höfðu blaðamenn á keppninni í flimtingum að Celine þyrfti að læra ensku ef hún ætlaði sér að verða heimsfræg. Eitthvað sem hún hefur svo sannarlega gert.

„Hún söng alveg svakalega vel á sviðinu. Hún kunni ekki stakt orð í ensku og var algjörlega óþekkt. Hún þurfti túlk til að túlka fyrir sig á blaðamannafundinum eftir sigurinn,“ segir Elín, sem nýverið fékk gullmerki Blaðamannafélags Íslands fyrir 40 ár í starfi.

Keppnin fór fram á Írlandi en Johnny Logan hafði unnið árið áður með hinu frábæra lagi Hold me now.

„Ég er 21 árs, mig dreymir um að verða heimsfræg söngkona og held að ég hafi nægan tíma. Ég er hamingjusöm yfir að hafa fengið tækifæri til að vera með í keppninni,“ sagði Celine við Elínu eftir sigurinn. Hún sagði einnig að aðeins átta mánuðir væru síðan hún var uppgötvuð þegar hún steig á sviðið í Dublin. „Ég er þakklát Svisslendingum fyrir að hafa valið lagið mitt og gefið mér þetta tækifæri,“ sagði hún enn fremur.

Þetta var fyrsta og eina skipti sem Elín fór á Eurovision. „Ég fór sem bæði ljósmyndari og blaðamaður. Það var engin tækni til að senda ljósmyndir eða textann og ég var send með eitthvað risastórt tæki sem ég átti að geta sent fréttir og myndir með heim. Málið var að það var ekkert þannig dæmi á Írlandi. Ég þurfti að finna alþjóðlega myndastofu til að geta sent myndirnar heim. Það er aðeins öðruvísi í dag,“ segir Elín og hlær.

Stigagjöfin í keppninni er ein sú eftirminnilegasta í sögunni því þegar þrjú lönd áttu eftir að gefa sín stig var Bretland í fyrsta sæti með 133 stig en Sviss í öðru með 118. Sigurinn blasti við Bretum. Frakkar gáfu sín atkvæði og hentu aðeins einu stigi á Sviss en engu á Breta. Portúgal gaf Sviss hin frægu 12 stig en Bretum þrjú og aðeins munaði fimm stigum. Júgóslavar voru síðastir til að gefa stigin og settu sex stig á Sviss. Allir biðu með öndina í hálsinum. En aldrei komu Bretar upp úr hattinum og stjarna Celine Dion var fædd.

Þú og þeir enduðu í 16. sæti sem voru vonbrigði. „Sverrir og Stefán ætluðu alls ekki að enda í 16. sæti. Þeir stefndu hærra,“ segir Elín sem hefur ekki farið aftur á Eurovision. „Ég hefði alveg viljað fara aftur, þetta var svo gaman,“ segir Elín.