Ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar tók við völdum þann 4. febrúar 1947. Varð Stefán Jóhann fyrsti forsætisráðherrann úr röðum Alþýðuflokksins en aðild að stjórninni áttu einnig Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Stjórnin fékk viðurnefnið Stefanía í höfuðið á forsætisráðherranum.

Auk Stefáns sem gegndi einnig embætti félagsmálaráðherra tóku sæti í stjórninni þeir Bjarni Benediktsson utanríkis- og dómsmálaráðherra, Bjarni Ásgeirsson landbúnaðarráðherra, Emil Jónsson viðskipta-, iðnaðar- og samgönguráðherra, Eysteinn Jónsson menntamála-, kirkjumála- og flugmálaráðherra og Jóhann Þ. Jósefsson sem var fjármála- og sjávarútvegsráðherra.

Stefanía tók við af Nýsköpunarstjórninni sem hafði tekið við völdum í október 1944 en í þeirri stjórn sátu Sjálfstæðisflokkur, Sósíalistaflokkur og Alþýðuflokkur. Vegna deilna um veru bandaríska hersins á Íslandi slitnaði upp úr samstarfinu í október 1946 en stjórnin sat þangað til ný tók við völdum.

Í stjórnartíð ríkisstjórnar Stefáns Jóhanns var innganga Íslands í NATO meðal annars samþykkt en í kjölfarið urðu miklar óeirðir á Austurvelli. Stjórnin baðst lausnar í nóvember 1949 en sat þar til minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins undir forystu Ólafs Thors tók við völdum.